- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Við kveðjum sáttir”

Ágúst Þór Jóhannsson og Gunnar Magnússon stýrðu íslenska landsliðinu í fjórum leikjum, þrír unnust, einn tapaðist. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Við tókum við landsliðinu við erfiðar aðstæður. Sú ákvörðun var alls ekki eitthvað sem við Gunnar óskuðum eftir. Við tókum bara að okkur þetta verkefni í skamman tíma þegar þess var farið á leit við okkur. Síðan þá höfum við Gunnar reynt að vinna eins vel úr málunum og okkur hefur frekast verið unnt,” sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar þjálfara íslenska karlalandsliðsins í handknattleik undanfarnar vikur þegar handbolti.is spurði hann eftir sigurleikinn á Eistlendingum í undankeppni EM á sunnudaginn hvernig síðustu vikur með landsliðinu horfi við honum. 

Að óbreyttu stýrðu Ágúst Þór og Gunnar Magnússon íslenska landsliðinu í síðasta sinn í leiknum við Eistlendinga í Laugardalshöll í undankeppni Evrópumótsins á sunnudaginn. Þeir tóku tímabundið við í febrúar þegar Guðmundur Þórður Guðmundsson hætti. 

Byggt á góðum grunni

„Markmiðið var að vinna riðilinn í undankeppninni og skila liðinu á góðan stað. Okkur tókst það. Okkur tókst einnig að rúlla vel liðinu og gefa öllum tækifæri til þess að spreyta sig. Starf okkar Gunnars varð byggt á miklum og góðum grunni sem fyrir var í landsliðinu. Breytingarnar á leik lansliðsins voru ekki stórkostlegar á okkar tíma. Liðið hefur leikið vel, ekki síst mjög góðan varnarleik með frábærri markvörslu,“ sagði Ágúst Þór sem kveður starfið sátt og glaður.  

Því má skjóta inn í að jafnaði hefur markvarsla landsliðsins verið um 40% í leikjunum fjórum undir stjórn Ágústar og Gunnars.

Mikil samkeppni

„Við erum ánægðir með að hafa skilað landsliðinu á þann stað sem ætlast var til þegar við tókum verkefnið að okkur með skömmum fyrirvara.  Íslenska landsliðið er mjög gott. Innan þess ríkir mikil samkeppni og hópur manna bankar á dyrnar sem er mjög jákvætt. Ég og Gunnar kveðjum sáttir,” sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar starfandi þjálfara karlalandsliðsins í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -