„Mér líður stórkostlega. Það er geggjað að vera kominn í undanúrslit. Þetta er risastórt fyrir okkur,“ sagði Brynjar Vignir Sigurjónsson markvörður íslenska landsliðsins í samtali við handbolta.is þegar hann gekk af leikvelli eftir að íslenska landsliðið tryggði sér sæti í undanúrslitum heimsmeistaramótsins í handknattleik, 21 árs og yngri, í Berlin í dag.
Var klár í slaginn
Brynjar Vignir kom í markið í síðari hálfleik og átti stórleik á milli stanganna. „Ég var klár þegar kallið kom og byrjaði af krafti, missti aðeins dampinn en svo kveiknaði aftur á mér síðustu tíu mínúturnar. Ég var bara klár að taka við ef Adam næði sér ekki á strik,“ sagði Brynjar Vignir sem átti ekki hvað sístan þátt í að snúa leiknum íslenska liðinu í hag þegar kom inn í síðari hálfleikinn. Hann varði fjögur skot í röð og alls þrjú hraðaupphlaup.
Rættist úr okkur
„Það vantaði kraft í okkur í fyrri hálfleik en það rættist heldur betur úr í síðari hálfleik,“ sagði Brynjar sem hefur ekki fengið nóg á mótinu.
„Við ætlum ekki að láta staðar numið núna. Við erum ekkert búnir. Við viljum meira!,“ sagði markvörðurinn eldhress í samtali við handbolta.is í Max Schmeling Halle í Berlín.