- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Við vorum lengi í gang“

Andri Már Rúnarsson á hraðferð fram völlinn á HM 21 árs landsliða í sumar. Mynd/IHF/Jozo Cabraja
- Auglýsing -

„Þetta var svo sannarlega ekki okkar besti leikur en við unnum og það skiptir öllu máli þegar upp er staðið. Við vorum lengi í gang,“ sagði Andri Már Rúnarsson einn leikmanna U21 árs landsliðsins í handknattleik í samtali við handbolta.is í kvöld eftir nauman sigur íslenska landsliðsins á Grikkjum, 29:28, í milliriðlakeppni heimsmeistaramótsins í Aþenu í dag.

Brynjar Vignir Sigurjónsson, Guðmundur Bragi Ástþórsson, Einar Bragi Aðalsteinsson, Andri Már Rúnarsson, Þorsteinn Leó Gunnarsson, Tryggvi Þórisson, Ísak Gústafsson, Andri Finnsson, Adam Thorstensen og Kristófer Máni Jónasson. Mynd/IHF/Jozo Cabraja

Varnarleikurinn ekki nógu góður

„Varnarleikurinn var ekki nógu góður framan af og þar með fór sjálfstraustið aðeins úr okkur. Þegar kom fram í síðari hálfleik þá hrukkum við í gang,“ sagði Andri Már sem valinn var besti maður leiksins annan leikinn í röð.

Íslenska liðið var mest fjórum mörkum undir, 21:17, eftir liðlega 10 mínútur í síðari hálfleik. Þá kom frábær sex mínútna kafli með fimm íslenskum mörkum í röð án þess að Grikkjum lánaðist að svara fyrir sig.

Sýndum karakter

„Við sýndum karakter að halda áfram að þótt ekki blési byrlega á kafla. Okkur gekk illa að skora og síðan jókst stemninginn í höllinni þegar gríska liðið var komið með talsvert forskot. En um leið og hlutirnir fór að smella hjá okkur þá vorum við vissir að vera komnir inn á beinu brautina,“ sagði Andri Már.

Gerir sigurinn sætari

„Það gerði sigurinn enn sætari að vinna naumt á útivelli með alla brjálaða í kringum okkur,“ sagði Andri Már ennfremur en hressilega var baulað og púað á íslenska liðið undir lokin og ekki síst eftir að flautað var til leiksloka.

Engin hjálp frá Egyptum

Serbar unnu Egypta í hinum leik dagsins í milliriðlinum, 33:26, sem þýðir að íslenska liðið þarf að fá a.m.k. eitt stig úr viðureigninni við Egypta á morgun, mánudag, til þessa að vera öruggt í átta liða úrslit heimsmeistaramótsins sem leikin verða í Berlín síðar í vikunni.

Af þessu leiðir að íslenska liðið er að fara í úrslitaleik við egypska liðið á morgun sem hefst klukkan 14.30. Andri Már segir það bara vera spennandi tilhugsun um leið og það hafi ekki komið á óvart að úrslitin hafi ekki fallið með íslenska liðinu í viðureign Egypta og Serba.

Verðum að vinna

„Úrslit annarra leikja á stórmótum falla aldrei með okkur Íslendingum. Við verðum bara að vinna Egypta á morgun. Það er ekkert sem heitir. Það er skemmtilegast að fara í hreinan úrslitaleik og verða að vinna þegar allt er undir,“ sagði Andri Már Rúnarsson einn leikmanna íslenska landsliðsins í handknattleik, skipað leikmönnum 21 árs og yngri í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -