- Auglýsing -
- Auglýsing -

Viðbúið er að fresta verði leikjum hjá KA og Fram

Nicholas Satchwell, hinn kattliðugi markvörður KA, er í færeyska landsliðinu sem á að leika þrjá leiki á fimm dögum í næstu viku. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Viðbúið er að bæði KA og Fram verði að fá frestun á leikjum sínum sem fram eiga að fara í Olísdeild karla miðvikudaginn 17. mars. Tveir landsliðsmenn Færeyja leika með hvoru liði en færeyska landsliðið á fyrir dyrum hreint dæmalausa leikjadagskrá í undankeppni EM en til stendur að leika þrjá landsleiki á fimm dögum. Sá síðasti verður sunnudaginn 14. mars í Þórshöfn.

Allan Nordberg, leikmaður KA og færeyska landsliðsins. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson


Markvörðurinn Nicholas Satchwell og hornamaðurinn Allan Norðberg úr KA eru í 17 manna hópi sem þjálfarar færeyska landsliðsins völdu á dögunum. Athygli vekur að Áki Egilsnes er ekki í hópnum að þessu sinni. Einnig eru Framararnir Rógvi Dal Christansen og Vilhelm Poulsen í færeyska hópnum.
Ef fjórmenningarnir taka þátt í síðasta leiknum, sem fastlega má búast við, þá koma þeir ekki til Íslands fyrr en daginn eftir, 15. mars. Þá tekur við fimm daga sóttkví.

Færeysku landsliðsmennirnir hjá Fram, Vilhelm Poulsen og Rógvi Dal Christiansen – Mynd/Fram


Fram á heimaleik gegn FH miðvikudaginn 17. mars. Sama dag er gert ráð fyrir að KA taki á móti Gróttu í KA-heimilinu.


Kórónuveiran hefur sett keppni í 3. riðli undankeppni EM í uppnám eins og í fleiri riðlum. Færeyingar og Tékkar hafa ekki ennþá hafið keppni. Rússar og Úkraínumenn eru þegar búnir að ljúka innbyrðisleikjum sínum. Af þessu leiðir að Tékkar og Færeyingar leika þrjá leiki hvor í landsleikjavikunni sem framundan er.


Hinn 10. mars er gert ráð fyrir að færeyska landsliðið leiki gegn Úkraínumönnum í Kiev. Tveimur dögum síðar eiga Færeyingar að mæta Tékkum í Þórshöfn og tveimur dögum síðar Úkraínumönnum, einnig í Þórshöfn.

Vilius Rašimas t.v. verður ekki með landsliði Litháen í tveimur leikjum sem framundan eru. Mynd/Selfoss/SÁ

Tveir leikir á 2 dögum


Vilius Rašimas, markvörður Selfoss, er ekki í landsliði Litháen að þessu sinni. Litháen mætir Ísrael í Vilnius sunnudaginn 14. mars. Reyndar kemur fram í leikjadagskrá á vef Handknattleikssambands Evrópu að til standi að Litháen mæti Ísrael í Tel-Aviv 9. mars en tveimur dögum síðar mætast á sama stað Ísrael og Ísland. Ísraelsmenn hafa aðeins lokið einum leik í undankeppninni. Óhætt er að segja að um sé að ræða fordæmalausa tíma í undankeppni EM.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -