- Auglýsing -
- Auglýsing -

Viggó halda engin bönd

Viggó Kristjánsson skoraði átta mörk í dag. Mynd/Stuttgart
- Auglýsing -

Viggó Kristjánsson heldur uppteknum hætti og fer hreinlega á kostum leik eftir leik með Stuttgart í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Í dag héldu honum engin bönd þegar Stuttgart sótti Flensburg heim. Hann skoraði 11 mörk, þar af fjögur úr vítaköstum þar sem hann var með fullkoma nýtingu. Því miður þá dugði stórleikur Viggós ekki til sigurs gegn hinu sterka liði Flensburg sem tapar sjaldan á heimavelli, lokatölur 34:30.

Viggó skoraði átta mörk í fyrri hálfleik úr níu skotum og vissu varnarmenn Flensburg-liðsins ekki hvaðan á sig stóð veðrið lengi vel. Alls átti Viggó 16 skot að markinu í leiknum.

Kominn upp að hlið Weber

Með mörkunum 11 í dag er Viggó kominn upp að hlið Austuríkismannsins Robert Weber hjá Nordhorn í efsta sæti lista markahæstu leikmanna þýsku 1. deildarinnar með 71 mark í níu leikjum eða um átta mörk að jafnaði í leik. Ekki eru nema þrjú og hálft ár síðan Viggó lék með Randers í neðri hluta dönsku úrvalsdeildarinnar.

Stuttgart-liðið átti lengi vel í fullu tré við lið Flensburg og var marki yfir í hálfleik, 18:17.

Elvar Ásgeirsson lék ekki með Stuttgart í dag vegna meiðsla á handlegg. Vonast er til að hann verði með í næsta leik liðsins. Eftir því sem næst verður komist eru meiðslin ekki alvarleg.

Rhein-Neckar Löwen er í efsta sæti þýsku 1. deildarinnar ásamt Kiel. Hvort lið hefur 14 stig eftir átta leiki. Flensburg er í þriðja sæti með 12 að loknum sjö viðureignum. Stuttgart situr í fjórða sæti með 11 stig en hefur lokið níu viðureignum.

Fleiri leikir eru á dagskrá þýsku 1. deildarinnar síðar í dag. M.a. verða Bjarki Már Elísson og Janus Daði Smárason, landsliðsmenn í eldlínunni með liðum sínum, Lemgo og Göppingen.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -