- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Viggó átti stórleik og er orðinn markahæstur

Viggó Kristjánsson skoraði átta mörk í dag. Mynd/Stuttgart
- Auglýsing -

Viggó Kristjánsson átti enn einn stórleikinn með Stuttgart í þýsku 1. deildinni í dag þegar liðið vann SC Magdeburg, 30:29, í GETEC Arena í Magdeburg. Viggó skoraði 9 mörk úr 12 skotum, þar af fjögur mörk úr vítaköstum þar sem hann var með fullkomna nýtingu. Viggó er þar með orðinn markahæstur í deildinni með 37 mörk, tveimur mörkum á undan Bjarka Má Elíssyni, Lemgo, Niklas Ekberg, Kiel og Robert Weber hjá Nordhorn.

Stuttgart lagði grunn að sigrinum með frábærum leik í fyrri hálfleik. Að honum loknum var munurinn 18:12. Leikmenn SC Magdeburg reyndu hvað þeir gátu til að jafna metin en allt kom fyrir ekki. Þetta var annar tapleikur Magdeburg á heimavelli það sem af er keppnistímabilinu en liðið hefur aðeins unnið eina viðureign í vígi sínu.

Stuttgart er í hópi fimm liða í fjórða til áttunda sæti deildarinnar með sjö stig eftir fimm umferðir.

Elvar Ásgeirsson lék eingöngu í vörn Stuttgart í dag eins og oftast áður. Ómar Ingi Magnússon skoraði eitt mark úr vítakasti fyrir Magdeburg en Gísli Þorgeir Kristjánsson komst ekki á blað.

Ýmir Örn Gíslason og félagar í Rhein-Neckar Löwen unnu HC Erlangen, 26:20 á útivelli og eru þar með komnir í efsta sæti deildarinnar með átta stig eftir fimm leiki, eins og Flensburg sem vann Coburg, 33:22, í dag og Kiel sem vann sinn leik í gærkvöld.

Ýmir Örn átti frábæran leik í vörn Rhein-Neckar Löwen þar sem hann leikur orðið annað aðalhlutverkið og virðist vaxa ásmegin með hverri viðureigninni. Hann skoraði eitt mark og átti aðeins eitt skot að marki. Samherji hans Uwe Gensheimer var í stuði og skoraði 11 mörk.

Fyrr í dag kjöldrógu leikmenn Melsungen liðsmenn Wetzlar, 33:25.

Staðan, fjöldi leikja er innan sviga:

Rhein-Neckar Löwen 8(5), Flensburg 8(5), Kiel 8(5), Leipzig 7(5), Bergischer HC 7(5), Lemgo 7(5), Melsungen 7(5), Stuttgart 7(5), SC Magdeburg 6(5), Wetlzar 6(5), Göppingen 5(4), Hannover-Burgdorf 5(5), Füchse Berlin 5(5), Erlangen 3(5), Minden 3(5), Essen 2(4), Ludwigshafen 2(5), Norhorn 2(5), Balingen 0(5), Coburg 0(5).

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -