- Auglýsing -
- Auglýsing -

Víkingar gefa ekkert eftir

Logi Snædal Jónsson og félagar í Víkingi unnum naumlega í kvöld. Mynd/Víkingur Finnbogi Sigur Marinósson
- Auglýsing -

Víkingur heldur sigurgöngu sinni áfram i Grill 66-deild karla í handknattleik. Í kvöld vann liðið níu marka sigur í heimsókn sinni til Kríu í Hertzhöllina á Seltjarnarnesi, 27:18, í toppslag sem því miður náði aldrei að verða spennandi. Fyrirfram voru væntingar um jafnan leik á milli liðsins í efsta sæti, Víkings, og Kríu sem sat í fjórða sæti þremur stigum á eftir toppliðinu.


Kríumenn náðu sér aldrei á strik gegn ákveðnu liði Víkings sem lék frábæra vörn. Reyndar tókst Kríu að skora tvö af fyrstu þremur mörkum leiksins en segja má að þar með hafi frumkvæði liðsins lokið það sem eftir var leiks. Víkingar skoruðu fimm mörk í röð og héldu tveggja til fjögurra marka forskoti allt til loka hálfleiksins þegar leikar stóðu, 14:10, Víkingi í vil. Í raun voru Víkingar klaufar að fara ekki með fimm marka forskot inn í hálfleik. Þeir fengu sókn á síðustu mínútunni en tókst einkar óhönduglega upp með þeim afleiðingum að sóknin rann út út í sandinn.


Leikmenn Kríu komu vel áttaðir til leiks í síðari hálfleik. Þeim tókst að skora þrjú fyrstu mörkin og virtust ætla að hleypa spennu í leikinn. Sú spenna rauk fljótlega út í veður og vind. Víkingar gengu á lagið og nýttu sér aragrúa mistaka í sóknarleik Kríu og skoruðu hvert markið á fætur öðru eftir hraðaupphlaup.


Munurinn hélst fimm og upp í sex mörk síðustu 10 til 12 mínútur leiksins og þegar Arnar Gauti Grettisson skoraði eftir hraðaupphlaup, 23:17, fimm mínútum fyrir leikslok varð hverjum manni ljóst að sigurinn var í höfn hjá Víkingi.

Eftir góða leiki upp á síðkastið, m.a. gegn Selfossi U og Fjölni og HK þá náðu Kríumenn sér alls ekki á strik að þessu sinni við sóknarleikinn eins og markafjöldinn gefur til kynna. Liðið skoraði aðeins 18 mörk, þar af gerði Kristján Orri Jóhannsson 10, þótt hann hafi örugglega átt betri leiki á leiktíðinni eins og allt Kríuliðið.

Varnarleikur Kríu var lengst af viðunandi og Víkingur átti á stundum erfitt með að skora eftir uppstilltan leik. Sigurður Ingiberg Ólafsson varði 14 skot í marki Kríu en var ekki öfundsverður af hlutverki sínu á köflum þegar hvert hraðaupphlaup Víkinga skall á honum eins flóðbylgja.


Daði Laxdal var ekki með Kríu að þessu sinni. Hann tognaði á nára í leiknum geng Selfossi og varð að láta sér lynda að vera við hliðarlínuna annan leikinn í röð. Daði var heldur ekki með á móti Fjölni.


Víkingar voru í sannkölluðum vígahug að þessu sinni. Liðið lék frábæra vörn og skoraði mikið eftir hraðaupphlaup og seinni bylgju. Einnig var Sverrir Andrésson vel með á nótunum í markinu og lét erfiða byrjun ekki slá sig út af laginu. Sverrir varði 11 skot samkvæmt kokkabókum blaðamanns sem fylgdist með leiknum í Hertzhöllinni í kvöld.

Mörk Kríu: Kristján Orri Jóhannsson 10, Gunnar Valur Arason 2, Arnar Jón Agnarsson 2, Sigþór Gellir Michaelsson 2, Árni Benedikt Árnason 1, Júlíus Þórir Stefánsson 1.
Varin skot: Sigurður Ingiberg Ólasson 14, Arnar Þór Ólafsson 2.
Mörk Víkings: Arnar Gauti Grettisson 5, Logi Snædal Jónsson 5, Jóhannes Berg Andrason 4, Egidijus Mikalonis 3, Gabríel Ágústsson 2, Arnar Steinn Arnarsson 2, Guðjón Ágústsson 2, Sverrir Andrésson 1, Styrmir Sigurðsson 1, Ólafur Guðni Eiríksson 1, Hjalti Már Hjaltason 1.
Varin skot: Sverrir Andrésson 11.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -