Víkingar sýndu í kvöld að lið þeirra er til alls líklegt á endaspretti Grill 66-deildar kvenna í handknattleik. Víkingur lagði Aftureldingu með fimm marka mun í Safamýri í viðureign liðanna í 15. umferð, 26:21, eftir að hafa verið marki undir í hálfleik, 12:11. Varnarleikur og markvarsla var afar öflug hjá Víkingsliðinu í síðari hálfleik í kvöld og rákust leikmenn Aftureldingar hvað eftir annað á vegg.
Víkingur er þar með aðeins tveimur stigum á eftir Aftureldingu þegar þrjár umferðir eru eftir. Afturelding hefur 21 stig í þriðja sæti en Víkingur 19. HK skaust upp fyrir Aftureldingu í annað sæti með 22 stig eftir stórsigur á Berserkjum í Víkinni, 24:9. KA/Þór er efst og stefnir hraðbyri upp í Olísdeildina á nýjan leik. KA/Þór er fjórum stigum á undan HK og á auk þess leik til góða gegn FH í Kaplakrika á morgun.
Sannarlega spennandi lokaumferðir framundan í Grill 66-deildum kvenna þar sem bitist verður um sæti í umspilinu og heimaleikjarétt.
Staðan og næstu leikir í Grill 66-deildum.
Mörk Víkings: Auður Brynja Sölvadóttir 8, Ída Bjarklind Magnúsdóttir 7, Hafdís Shizuka Iura 6, Arnbjörg Bertha Kristjánsdóttir 2, Ivana Jorna Meincke 1, Mattý Rós Birgisdóttir 1, Sunna Katrín Hreinsdóttir 1.
Varin skot: Klaudia Katarzyna Kondras 8, Signý Pála Pálsdóttir 7.
Mörk Aftureldingar: Hulda Dagsdóttir 8, Susan Ines Gamboa 4, Stefanía Ósk Engilbertsdóttir 3, Áróra Eir Pálsdóttir 2, Ragnhildur Hjartardóttir 2, Anna Katrín Bjarkadóttir 1, Lovísa Líf Helenudóttir 1.
Varin skot: Ingibjörg Gróa Guðmundsdóttir 10, Saga Sif Gísladóttir 1.
Tölfræði leiksins hjá HBritara.