- Auglýsing -
- Auglýsing -

Víkingur skiptir um þjálfara

Meistaraflokkslið Víkings í handknattleik kvenna hefur fengið nýjan þjálfara. Mynd/Víkingur
- Auglýsing -

Kvennalið Víkings í handknattleik hefur fengið nýjan þjálfara fyrir átökin sem vonandi standa fyrr en síðar fyrir dyrum í Grill 66-deild kvenna. Sigurlaug Rúnarsdóttir hefur tekið við þjálfun meistaraflokks kvenna af Þór Guðmundssyni sem lætur af störfum vegna anna í aðalstarfi sínu. Hann mun þó áfram þjálfa áttunda flokk ásamt Jóni Gunnlaugi Viggóssyni.

Þetta staðfesti Hallur Magnússon einn stjórnenda Handknattleiksdeildar Víkings í samtali við handbolta.is.


Sigurlaug er þrautreynd og sigursæl handknattleikskona sem var árum saman einn lykilleikmaður meistaraflokks Vals. Hún hefur hin síðari ár snúið sér að þjálfun eftir að skórnir fóru á hilluna. Sigurlaug hefur þjálfað yngri flokka, m.a. hjá Víkingi. Hún var um skeið aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna hjá Val og starfaði þar með Ágústi Þór Jóhannssyni.

Hallur sagði við handbolta.is að eftirvænting ríkti vegna komu Sigurlaugar. Í kringum 20 stúlkur æfðu að staðaldri með meistaraflokki Víkings þar sem áhersla væri lögð á að byggja upp lið á næstu árum sem jafnt og þétt gæti fetað sig áfram. Efniviður væri svo sannarlega fyrir hendi.

Í Víkinni eins og annarstaðar í handboltadeildum og félögum þá er þess beðið að flautað verði á ný til keppni á Íslandsmótinu. Keppni í Grill 66-deildinni hefur legið niðri síðan í lok september. Þá var aðeins tveimur umferðum lokið.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -