- Auglýsing -
- Auglýsing -

Viktor Gísli er efnilegasti markvörður heims

Viktor Gísli Hallgrímsson er efnilegasti markvörður heims um þessar mundir. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Viktor Gísli Hallgrímsson markvörður Nantes í Frakklandi og íslenska landsliðsins er besti ungi handknattleiksmarkvörður heims, samvæmt niðurstöðu í vali vefsíðunnar handball-planet. Ekki er nóg með það því að Viktor Gísli hafnaði í þriðja sæti í kjöri á efnilegasta handknattleiksmanni heims um þessar mundir. Niðurstöðurnar koma ekki á óvart. Viktor Gísli hefur átt frábært keppnistímabil með Nantes og fyrir vikið hefur frammistaða hans vakið verðskuldaða athygli víða í Evrópu.


Kjörið fór fram á netinu og greiddu ríflega 15.000 manns atkvæði í vali á efnilegasta markverðinum. Atkvæðin giltu sem ákveðið hlutfall á móti niðurstöðu dómnefndar síðunnar sem skipuð var eldri handknattleiksmönnum og fjölmiðlamönnum sem skrifa reglulega um handknattleik. Viktor Gísli varð annar í netkosningunni en hlaut mun meiri stuðning innan dómnefndarinnar sem varð til þess að hann hreppti hnossið; efnilegasti markvörður heims 2022.


Sænski handknattleiksmaðurinn Eric Johansson, leikmaður THW Kiel, varð fyrir valinu í kjöri á efnilegasta handknattleiksmanni heims um þessar mundir. Portúgalska undrabarnið Francisco Mota da Costa hjá Sporting hafnaði í öðru sæti og í þriðja sæti varð Viktor Gísli Hallgrímsson.


Þótt kosningar af þessu tagi séu fyrst og síðast til gamans gerðar þá er það rós í hnappagat ungra leikmanna að koma til greina, hvað þá verða fyrir valinu sem sá efnilegasti í sinni stöðu. Öllu gamni fylgir einhver alvara.


Handball-Planet hefur staðið fyrir kjöri á efnilegasta handknattleiksmanni heims á hverju ári frá 2014. Valinn er sá efnilegasti í hverri stöðu á leikvellinum annarsvegar og síðan einn sem er sá efnilegasti af öllum hópnum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -