Viktor Gísli Hallgrímsson og samherjar hans í GOG tryggðu sér í kvöld sæti í undanúrslitum dönsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik þegar þeir unnu SönderjyskE, 36:28, á útivelli í fjórðu umferð undanúrslitariðils eitt. Bjerringbro/Silkeborg fór langt með að tryggja sér fjórða og síðasta sæti með sigri á Kolding, 27:23, í Kolding.
Í hinum riðlinum innsigluðu Aalborg og Holstebro sæti í undanúrslitum í gærkvöld. Íslendingar eru viðriðnir bæði liðin. Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari Aalborg og Óðinn Þór Ríkharðsson leikur með Holstebro.
Viktor Gísli stóð vaktina í marki GOG af árverkni og varði 11 skot sem gerði 37% hlutfallsmarkvörslu. Sveinn Jóhannsson hélt uppteknum hætti frá landsleiknum á sunnudaginn og lék afar vel. Hann skoraði 7 mörk fyrir SönderjyskE og var markahæstur.
Ágúst Elí Björgvinsson stóð í marki Kolding hluta leiksins gegn Bjerringbro. Hann varði fimm skot, þar af bæði vítaköstin sem hann spreytti sig gegn. Hlutfallsmarkvarsla hans var 41%.