- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Vil sjá að við höldum áfram að bæta okkar leik

Lilja Ágústsdóttir og Elín Rósa Magnúsdóttir landsliðskonur. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Fyrsti leikur íslenska landsliðsins í handknattleik kvenna á fjögurra liða móti í Noregi fer fram í dag þegar liðið mætir landsliði Póllands í Hamri. Flautað verður til leiks klukkan 15.45.

Íslenska landsliðið kom til Noregs í gær og hefur komið sér fyrir í Ólympíubænum Lillehammer. Dvelur landsliðshópurinn þar fram yfir helgi áður en farið verður til Stavangurs þar sem leikir heimsmeistaramótsins fara fram frá og með 30. nóvember.

Auk leiksins við Pólverja í dag mætir íslenska landsliðið Noregi og Angóla á mótinu en leikjadagskrána er finna neðst í þessari grein.


„Ég vil sjá að við höldum áfram að bæta við okkar leik, jafnt í vörn sem sókn, að við leggjum allt í hvern leik og gera allt eins vel og hægt er. Takist það þá verða næstu skref jafnt og þétt betri,“ sagði Arnar Pétursson landsliðsþjálfari í samtali við handbolta.is áður en íslenska landsliðið hélt af landi brott.

Arnar Pétursson landsliðsþjálfari fylgist haukfránum augum með leik frá hliðarlínunni. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Í mörg horn að líta

Þátttaka á stórmóti verður ný reynsla fyrir flesta leikmenn liðsins. Örfáir hafa reynslu af fyrri þátttöku landsliðsins á EM og HM fyrir meira en áratug. Aðrar hafa verið með yngri landsliðum á stórmótum sem er miniútgáfa á A-landsliðsmótum. Mjög mun reyna á samheldni hópsins og einbeitingu og fleiri þætti eins og langa fjarveru frá fjölskyldu auk þess sem einhverjir leikmenn þreyta próf frá skólum til viðbótar við að aðrir munu sinna störfum sínum að einhverju leyti. Þess utan þarf að takast á við sigra og ósigra á HM en leikirnir á mótinu verða sennilega sex eða sjö.

Krefjandi verkefni

Arnar segist gera sér grein fyrir að mjög mikið eigi eftir að reyna á allan hópinn á komandi vikum sem verði saman í a.m.k. þrjár vikur.

„Næstu dagar og vikur munu reyna mjög á okkur öll. Framundan er krefjandi verkefni sem á um leið að vera skemmtilegt. Þetta á að vera mikilvægur tími og lærdómsríkur og um leið er ljóst að hann verður mjög erfiður á köflum. Ég er að sama skapi viss um að við munum taka mjög mikið út úr þátttökunni sem skilar sér ekki síður þegar til framtíðar er litið,“ sagði Arnar Pétursson landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik.

Leikjadagskrá Posten Cup 23. – 26.nóvember:
Fimmtudagur, Hamar: 
Kl. 15.45: Pólland – Ísland.
Kl. 18.15: Noregur – Angóla.
Laugardagur, Lillehammer: 
Kl. 15.45: Noregur – Ísland.
Kl. 18.15: Angóla – Pólland.
Sunnudagur, Lillehammer:
Kl.13.45: Noregur – Pólland.
Kl.16.15: Ísland – Angóla.

– Allir leiktímar eru miðað við klukkuna á Íslandi. 

– Handbolti.is fylgist af fremsta megni með leikjum Ísland á  mótinu.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -