- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Virðist ekki það sama gilda allsstaðar – Halldór Stefán kallar eftir samræmi

Halldór Stefán Haraldsson þjálfari KA og leikmenn hans fá Aftureldingu í heimsókn í átta liða úrslitum Poweradebikarsins. Ljósmynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -


Halldór Stefán Haraldsson þjálfari karlaliðs KA segir sérstaka atburðarrás hafi farið af stað í viðureign KA og Stjörnunnar í Olísdeild karla á fimmtudaginn þegar hann óskaði eftir leikhléi með því að leggja höndina á ritaraborðið og biðja um leikhlé. Dómarar leiksins hafi m.a. skipt um skoðun og eytt löngum tíma í að komast að niðurstöðu ásamt eftirlitsmanni leiksins, niðurstöðu sem eigi sér jafnvel ekki stoð í reglum.

Tímatökuspjaldið sem hafi verið á sinni ábyrgð hafi tapast í hita leiksins og þess vegna hafi hann farið þá leið að óska eftir leikhléi með fyrrgreindum hætti. Fyrir fáeinum vikum hafi hann verið í svipaðri stöðu og fengið leikhlé með því að leggja hönd á ritarborðið án þess að það hafi dregið dilk á eftir sér.

Halldór Stefán óskar eftir að allir læri af þessu atviki og að reglur verði samræmdar á milli eftirlitsmanna og dómara. Auk þess sem skylt verði að leikhléshnappar séu fyrir hendi í öllum íþróttahúsum þar sem leikið er í Olísdeildum karla og kvenna.

Það sem að situr í mér er að hér er misræmi á milli eftirlitsmanna/dómara á milli leikja

Leikhlésspjaldið er á minni ábyrgð

„Ég vil byrja á því að segja að með þessu viðtali þá er þessu máli lokið af minni hálfu og ég ber engan kala til neins sem að málinu koma. Ég ber gríðarlega virðingu fyrir störfum dómara og eftirlitsmanna í íþróttinni okkar og geri mér fullkomlega grein fyrir því hversu erfitt starf þeirra er. Ég ber að sjálfsögðu ábyrgð á því að hafa leikhlésspjaldið tilbúið til þess að taka leikhlé þegar ég þarf á því að halda. Það sem að situr í mér er að hér er misræmi á milli eftirlitsmanna/dómara á milli leikja.

Oft þröng á þingi í KA heimilinu og stuttu fyrir þennan atburð þá virðist sem einhver hafi rekist í leikhlésspjaldið sem olli því að það datt á bakvið stúkuna

Lagði höndina á ritaraborðið

Ég geymi græna kortið alltaf á sama stað fyrir aftan bekkinn en það er oft þröng á þingi í KA heimilinu og stuttu fyrir þennan atburð þá virðist sem einhver hafi rekist í leikhlésspjaldið sem olli því að það datt á bakvið stúkuna. Atburðarrásin hefst þegar ég lagði höndina á ritaraborðið og bað um leikhlé, þá fékk ég það svar til baka frá eftirlitsmanni, sem hafði þá flautað og stöðvað leiktímann, að ég hafi ekki lagt spjaldið á borðið. Ég sagði sem var að spjaldið, sem er sannarlega á minni ábyrgð, væri týnt, það fannst svo stuttu síðar á bakvið stúkuna í KA heimilinu,“ segir Halldór Stefán og bætir við að upp úr þessu hafi farið af stað sérstök atburðarás.

Einhverra hluta vegna tóku þeir síðan annan pól í hæðina eftir langar samræður við eftirlitsmann

Rekistefna við ritaraborðið í KA heimilinu á fimmtudagskvöld. Ljósmynd/Skapti Hallgrímsson, Akureyri.net

Skipta um skoðun

„Dómararnir voru kallaðir til og eftirlitsmaður leiksins ásamt dómurum ákveða refsinguna, það er að við fengjum ekki leikhlé og töpuðum því, misstum boltann og að dæmdur var tveggja mínútna brottrekstur á mig sem þýddi að við vorum manni færri síðustu 33 sekúndurnar.

Til að byrja með virtust dómararnir ætla að dæma að KA ætti boltann áfram. Það sést bersýnilega á upptöku frá leiknum. Einhverra hluta vegna tóku þeir síðan annan pól í hæðina eftir langar samræður við eftirlitsmann.

Ég átti þetta leikhlé sannarlega inni og var á engan hátt að reyna að koma á auka leikhléi eða ólöglegu leikhléi

Ekkert í reglunum

Ég get ekki fundið í reglum að þetta sé refsingin við meintu broti. Ég átti þetta leikhlé sannarlega inni og var á engan hátt að reyna að koma á auka leikhléi eða ólöglegu leikhléi.

Mögulega má benda á að þetta sé ódrengileg hegðun af minni hálfu og refsa samkvæmt því en þá tel ég að ég hefði þá átt að halda eftir leikhléinu í það minnsta og átt möguleika á því að taka það síðar í leiknum sem hefði skipt okkur öllu máli,“ segir Halldór Stefán sem heyrt hefur í mörgum innan handboltahreyfingarinnar síðustu daga, jafnt dómurum sem öðrum sem lýst hafa furðu sinni á þeim ákvörðunum sem teknar voru.

Yfirlýsing frá KA: Rangar ákvarðanir teknar sem mögulega kostuðu sigur

Reglurnar séu kristaltærar

Eins og kom fram í yfirlýsingu KA á laugardaginn var ákveðið að kæra ekki framkvæmd leiksins, heldur una niðurstöðunni. Um leið er óskað eftir að reglurnar séu kristaltærar og starfsmenn leikja séu með á hreinu hvernig vinna eigi úr atvikum af þessu tagi.

Hinsvegar er staðan þannig og fyrir því eru mörg dæmi bæði í Olísdeild karla og kvenna að þjálfarar óska eftir hléi án þess að leggja spjaldið á borðið

Mynd/Eyjólfur Garðarsson

Stendur vissulega skýrt

Halldór Stefán segir að vissulega standi skýrt í reglum að til þess að fá leikhlé verði að leggja græna spjaldið á ritaraborðið.

„Hinsvegar er staðan þannig og fyrir því eru mörg dæmi bæði í Olísdeild karla og kvenna að þjálfarar óska eftir hléi án þess að leggja spjaldið á borðið, til dæmis með að leggja lófa á ritaraborðið. Af því eru til myndbrot til staðfestingar. Í þeim atvikum hefur þessi refsing ekki átt við. Þar af leiðandi virðist ekki það sama gilda um alla,“ segir Halldór Stefán sem sjálfur bað um leikhlé í viðureign á höfuðborgarsvæðinu fyrir nokkrum vikum með því að leggja lófa á ritaraborðið og óskaði um leið munnlega eftir leikhléi. Það var veitt möglunarlaus.

Gleymist stundum

„Einnig hefur komið fyrir að gleymst hafi að afhenda þjálfurum spjaldið í síðari hálfleik og aldrei orðið neinn hamagangur útaf því,“ segir Halldór og bætir við.

Ég tel ótvírætt að skoða verði fyrir alvöru að skylt verði að hafa leikhléshnappa í öllum húsum þar sem leikið er í Olísdeildum karla og kvenna

Skylda að vera með leikhléshnapp

„Auk þess þá er sumstaðar leikhléshnappur en annarstaðar ekki sem býr meðal annars til þetta vandamál. Ég tel ótvírætt að skoða verði fyrir alvöru að skylt verði að hafa leikhléshnappa í öllum húsum þar sem leikið er í Olísdeildum karla og kvenna.

Það er eflaust mörgum í fersku minni þegar eftirlitsmaður flautaði leikhlé á Einar Jónsson í leik með kvennaliði Fram á síðustu leiktíð. Þar var ekkert grænt kort lagt á borðið en vissulega ákveðið fjaðrafok

Þjálfaralínan góða

Þar að auki var kynnt til leiks fyrir nokkrum árum svokölluð þjálfaralína eða tímavarðalína þar sem ritaraborðinu ber að flauta leikhlé ef að þjálfarar fara inn fyrir línuna, er það gert til þess að þjálfarar geti ekki staðið uppvið borðið með spjaldið og valdið óþarfa ruglingi hjá tímavarðarborðinu, það er eflaust mörgum í fersku minni þegar eftirlitsmaður flautaði leikhlé á Einar Jónsson í leik með kvennaliði Fram á síðustu leiktíð. Þar var ekkert grænt kort lagt á borðið en vissulega ákveðið fjaðrafok sem varð í kjölfarið að því. Því tel ég að þar sem ég var kominn yfir þessa línu hefði einfaldasti dómurinn verið sá að leyfa leikhléinu að standa og áfram gakk,“ segir Halldór Stefán.

Mér finnst ekkert óeðlilegt að gera þá kröfu til þeirra sem fjalla um handbolta að þeir séu með staðreyndirnar á hreinu

Rann í skap

Halldór Stefán segist vera vonsvikinn og hafi jafnvel aðeins runnið skap yfir hvernig fjallað var um atvikið í fjölmiðlum, þar á meðal á handbolti.is.

„Víða var fjallað um málið á þann hátt að þjálfari KA hefði klúðrað leiknum og gert mistök. Mér finnst ekkert óeðlilegt að gera þá kröfu til þeirra sem fjalla um handbolta að þeir séu með staðreyndirnar á hreinu, eða grafi aðeins ofan í málið, þegar svona atvik koma upp, atvik sem að mínu mati er mjög sérstakt og jafnvel einstætt. Umfjöllunin fór fyrir brjóstið á mér, ég dreg ekki fjöður yfir það,“ sagði Halldór Stefán Haraldsson þjálfari karlaliðs KA í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -