- Auglýsing -
- Auglýsing -

Viss um að góður dagur er fyrir höndum

Arnar Pétursson landsliðsþjálfari í handknattleik kvenna. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

„Það er alltaf möguleiki í hverri stöðu eins og oft hefur komið í ljós. Þeir sem fyrirfram eiga minni möguleika standa oft uppi sem sigurvegarar. Inn á það ætlum við að spila,“ sagði Arnar Pétursson landsliðsþjálfari í handknattleik kvenna í samtali við handbolta.is fyrir stórleikinn í Zrenjanin í Serbíu í dag. Þar mætast landslið Serbíu og Íslands í hreinum úrslitaleik um keppnisrétt á Evrópumótinu sem fram fer í nóvember. Svíar eru þegar öruggir með að komast áfram úr sjötta riðli. Ísland og Serbía bítast um hinn farseðilinn.


„Serbar eru aðeins sterkari og þyngri en sænska landsliðið sem við mættum heima á miðvikudagskvöldið. Leikmenn serbneska liðsins eru ekki eins hreyfanlegir og það eitthvað sem við verðum að nýta okkur. Að sama skapi er mikill þungi í öllum aðgerðum Serbanna. Við verðum að vera undir það búin,“ sagði Arnar sem hefur lagt nótt sem nýtan dag ásamt aðstoðarmönnum við að búa íslenska landsliðið sem best undir leikinn mikilvæga í dag. Ár og dagur eru liðin síðan íslenska landsliðið var í viðlíka tækifæri fyrir lokaumferð í undankeppni Evrópumótsins og nú.


„Við verðum að hitta á okkar allra besta dag og fá toppframmistöðu frá öllum leikmönnum svo hlutirnir gangi upp. Ég hef þá trú að svo verði og við munum leika hörkuleik við Serbana. Það verður stemning í húsinu sem verður gaman að njóta. Ég er nokkuð viss um að við eigum góðan dag fyrir höndum. Mér finnst forsendur vera til þess ef við höldum áfram á þeirri framfarabraut sem við höfum verið á,“ sagði Arnar Pétursson landsliðþjálfari í samtali við handbolta.is.


Handbolti.is er í Zrenjanin og fylgist með leiknum í stöðu- og textalýsingu úr kristalshöllinni frá klukkan 16.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -