- Auglýsing -
- Auglýsing -

Vissum að brugðið gæti til beggja vona

Leikmenn Vals búa sig undir fyrri leikinn á laugardaginn. Mynd/Aðsend
- Auglýsing -

„Við vissum þegar lagt var að stað að það gæti brugðið til beggja vona með framhaldið þar sem við lékum báða leikina á útivelli gegn sterku liði sem er í öðru sæti serbnesku 1. deildarinnar,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari kvennaliðs Vals við handbolta.is eftir að lið hans féll úr keppni í Evrópubikarkeppni kvenna í handknattleik í gær.


Valur tapaði tvisvar sinnum um helgina fyrir ZRK Bekament frá Arandjelovac í Serbíu, 29:28 á laugardag og 30:24, í gær. „Ég er að mörgu leyti ánægður með frammistöðuna hjá stelpunum. Þær lögðu mikið á sig. Heilt yfir er ég nokkuð sáttur þótt markmiðið um að komast áfram hafi ekki náð. Leikmennirnir öðluðust dýrmæta reynslu sem á eftir að nýtast þeim,“ sagði Ágúst Þór sem var m.a. án öflugra leikmanna í leikjunum, má þar m.a. nefnda Lovísu Thompson og Írisi Ástu Pétursdóttur.


Eftir eins marks tap í fyrri leiknum, 29:28, var verk að vinna fyrir Val í síðari viðureigninni í gær. Sumt gekk vel en annað miður, eins og gengur að sögn Ágústs Þórs.

Nýttum ekki upplögð tækifæri

„Varnarleikur okkar í dag var betri en í fyrri leiknum. Þar af leiðandi kom markvarslan með. En því miður þá vorum við okkur sjálfum verst með því að skora ekki úr nokkrum upplögðum marktækifærum. Sérstaklega undir lok fyrri hálfleiks og á upphafskafla þess síðari. Í stað þess að vera með jafnan leik þegar stundarfjórðungur var til leiksloka þá vorum við fimm mörkum undir. Það þyngdi róðurinn. Sóknarleikurinn gekk vel að því leytinu að margar lögðu í púkkið sem varð til þess að við bjuggum til mörg góð tækifæri til að skora,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari kvennaliðs Vals við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -