- Auglýsing -
- Auglýsing -

Vona að allir séu tilbúnir að taka ábyrgð á því sem gerðist

Leikmennn Selfoss fagna góðum sigri í KA-heimilinu í vetur. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Ég vona að það séu allir tilbúnir að taka ábyrgð á því sem gerðist og við förum öll saman í það að koma liðinu aftur upp í Olísdeildina. Ég er að vinna með það að við vinnum saman og við töpum saman,“ segir Tinna Soffía Traustadóttir fyrirliði liðs Selfoss í viðtali við Selfoss hlaðvarpið þar sem hún gerir upp tímabilið ásamt Eyþóri Lárussyni þjálfara.

Erfiðir síðustu dagar

Selfoss tapaði fyrir ÍR í oddaleik í umspili Olísdeildar kvenna og féll þar með úr Olísdeildinni eftir eins árs veru.

Tinna Soffía segir að síðustu dagar eftir að liðið féll hafi verið erfiðir enda vonbrigðin mikil. Leikmenn liðsins hafi komið saman til æfinga og einnig til þess að ræða saman og deila reynslu sinni og tilfinningum.

Tinna Soffía Traustadóttir fyrirliði Selfoss. Mynd/ Umf. Selfoss/ÁÞG

„Við náðum ekki markmiðum okkar. Það er sárt og svekkjandi. Við þjöppum okkur saman og stígum upp úr þessu í sameiningu,“ segir Tinna Soffía. Engan bilbug er að finna á henni. Fyrir utan umspilsleikina og reynsluna af honum segir Tinna Soffía að nú sé að baki afar lærdómsríkt tímabil þar sem tekist var á við margvíslegar og misjafnlega krefjandi áskoranir.

Hefur áhyggjur

„Mér þykir ótrúlega vænt um kvennahandboltann á Selfoss. Ég hef pínu áhyggjur af kvennahandboltanum ef við förum ekki saman í þetta verkefni og förum strax upp aftur. Við þurfum að hafa lið sem er fyrirmyndir fyrir ungar stelpur sem eru að koma upp. Svo má líka bara vera kvennalið á Selfossi. Við höfum eina bestu umgjörð á landinu. Hér er allt til alls,“ segir Tinna Soffía.

Engan bilbug er að finna

„Markmið okkar er að byggja upp kvennalið sem verður í fremstu röð á Íslandi. Okkur tókst ekki að halda okkur í Olísdeildinni að þessu sinni. Þar af leiðandi færist það fram um eitt ár,“ segir Eyþór. Engan bilbug er að finna á stjórnendum handknattleiksdeildar Selfoss eða stuðningsmönnum félagsins, að sögn Eyþórs sem tók við þjálfun liðsins fyrir ári. Ekki er annað að heyra en hann ætli að taka þátt í starfinu áfram.

Eyþór Lárusson, þjálfari Selfossliðsins. Mynd/UMFS/ÁÞG

Verður ekki unnin með vinstri

„Við ætlum okkur að halda áfram að markmiði okkar hvort sem það tekst eftir ár eða tvö. Grill-deildin er ekki þannig að hún verði unnin með vinstri hendi. Hún er verkefni.“

Ekki í okkar höndum

Selfoss samdi í lok vetrar og í byrjun vors við nokkra leikmenn um að ganga til liðs við félagið í sumar. Hvort þeir samningar taka gildi liggur ekki fyrir. Eyþór og Tinna Soffía segja að samningmál séu í höndum annarra en þeirra. Hvað gerist í þeim efnum komi í ljós þegar fram líða stundir.

Af hverju ekki?

„Úr því að við erum með tvær deildir hér á landi þá er undarlegt að það skuli vera utanaðkomandi pressa að um leið og liðið þitt fer í Grill-deildina þá eigi góðir leikmenn að fara í önnur lið. Til hvers erum við með tvær deildir ef góðir leikmenn mega ekki leika í neðri deildinni?,“ spyr Tinna Soffía Traustadóttir í hlaðvarpsþætti Selfoss.

Hægt er að nálgast þáttinn í heild hér fyrir neðan. Auk Tinnu Soffíu og Eyþórs er rætt við Þóri Ólafsson þjálfara meistaraflokks karla og Einar Sverrisson leikmann Selfossliðsins.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -