„Ungverjarnir voru stórkostlegir en á móti kemur að við hittum bara alls ekki á okkar besta leik,“ sagði Einar Andri Einarsson annar þjálfara íslenska U21 árs landsliðsins í samtali við handbolta.is eftir sjö marka tap fyrir Ungverjum í undanúrslitaleik heimsmeistaramótsins í Max Schmeling Halle í Þýskalandi í dag, 37:30.
„Við náðum aldrei takti varnarlega. Það vantaði meiri baráttuanda í okkur við að komast í snertingu við Ungverjana og brjóta á þeim. Því fór sem fór,“ sagði Einar Andri sem sagði sóknarleikinn á tíðum í fyrri hálfleik hafa verið viðunandi.
„Við skoruðum 14 mörk í fyrri hálfleik og fengum nærri því engin hraðaupphlaup. Sóknarleikurinn var ekki auðveldur heilt yfir en kannski ekkert erfiðari en reikna mátti með.
Það sem situr eftir var að ná ekki að leika betri vörn. Það eru vonbrigðin að mínu mati þegar ég lít til baka á leikinn,“ sagði Einar Andri sem hefur ekki nema sólarhring ásamt sínum piltum að búa þá undir bronsleikinn á morgun sem hefst klukkanm 13.30.
Ljúka mótinu með stæl
„Nú verðum að rífa okkur upp og klára mótið með stæl. Ég veit að það þarf ekki mikið til þess að hressa menn við. Ég þekki strákana nóg vel til þess að vita það,“ sagði Einar Andri Einarsson annar þjálfara U21 árs landsliðs Íslands í samtali við handbolta.is í dag.