Vonir Hollendinga um sæti í undanúrslitum eru nánast úr sögunni með tapi fyrir Þjóðverjum, 36:28, í fyrstu umferð milliriðlakeppni Evrópumóts kvenna í handknattleik í Skopje í kvöld. Þýska liðið var fjórum mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 17:13.
Hollenska liðið náði sér aldrei á strik í leiknum og virtist sem leikmenn skorti sjálfstraust á köflum. Í hvert sinn sem möguleiki gafst á að minnka forskot þýska liðsins niður í tvö mörk síðla í fyrri hálfleik og framan af þeim fyrri fór allt í skrúfuna hjá Hollendingum. Þýska vörnin var afar sterk og áttu burðarásar hollenska liðsins erfitt uppdráttar.
Þjóðverjar gengu á lagið þegar leið á síðari hálfleik svo aldrei lék vafi á um hvort liðið færi með sigur af hólmi.
Mörk Hollands: Antje Malestein 8, Nikita Van Der Vliet 5, Laura Van Der Heijden 5, Bo Van Wetering 5, Inger Smits 2, Kelly Dulfer 1, Merel Freriks 1, Dione Housheer 1.
Varin skot: Yara ten Holte 8, 24% – Rinka Duijndam 2, 20%.
Mörk Þýskalands: Alina Grijseels 8, Johanna Stockschlader 7, Maike Schirmer 5, Emily Bolk 4, Julia Maidhof 4, Luisa Schulze 3, Xenia Smits 3, Silje Petersen 1.
Varin skot: Katharina Filter 11, 30% – Isabell Roch 0.
Síðari í kvöld mætast lið Rúmeníu og Spánar.
Staðan í milliriðli 2:
Frakkland | 2 | 2 | 0 | 0 | 61 – 45 | 4 |
Svartfjallaland | 2 | 2 | 0 | 0 | 59 – 48 | 4 |
Þýskaland | 3 | 1 | 0 | 2 | 82 – 80 | 2 |
Spánn | 2 | 1 | 0 | 1 | 46 – 51 | 2 |
Holland | 3 | 1 | 0 | 2 | 81 – 90 | 2 |
Rúmenia | 2 | 0 | 0 | 2 | 49 – 64 | 0 |
EM kvenna22 – milliriðlakeppni leikjadagskrá.