- Auglýsing -
- Auglýsing -

Voru yfir í fjórar mínútur og fóru með sigur út býtum

Nýkrýndir deildarmeistarar í Olísdeildinni, KA/Þór, hafa oft haft ástæðu til að fagna á síðustu mánuðum. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

KA/Þór vann hreint ótrúlegan sigur á ÍBV í upphafsleik áttundu umferðar Olísdeildar kvenna í handknattleik í KA-heimilinu í dag, 24:23, eftir að hafa verið undir nær allan leiktímann. ÍBV var þremur mörkum yfir í hálfleik, 11:8. Þetta var fjórði tapleikur ÍBV í síðustu fimm leikjum eftir að keppni hófst aftur eftir nokkra mánaða hlé.


Ásdís Guðmundsdóttir tryggði KA/Þór sigurinn þegar hún skoraði úr vítakasti þegar 10 sekúndur voru til leiksloka. Heimaliðið var yfir í rúmar fjórar mínútur í leiknum eftir því sem fram kom í lýsingu KATV frá leiknum. ÍBV var mest með fjögurra marka forskot rétt fyrir miðjan síðari hálfleik.
KA/Þór hefur þar með sest í efsta sæti deildarinnar með 12 stig eftir átta leiki. Valur og Fram hafa 10 stig eftir sjö leiki. Valur leikur síðar í dag við Hauka í Schenkerhöllinni. ÍBV situr fast í fimmta sæti deildarinnar með sjö stig að loknum átta leikjum.


KA/Þórs-liðið skoraði fyrsta mark leiksins og var aftur yfir, 2:1, áður en ÍBV-liðið tók völdin og náði mest þriggja marka forskoti, 7:4, um miðjan fyrri hálfleik þegar hvorki gekk né rak hjá leikmönnum KA/Þórs sem skoruðu ekki mark í átta mínútur. Varnarleikur og markvarsla var aðal beggja liða. Talsvert var um einföld mistök hjá leikmönnum beggja liða allan leikinn.


Andri Snær Stefánsson, þjálfari, KA/Þórs stillti upp sjö manna sóknarleik og með seiglu tókst að minnka muninn í eitt mark, 9:8. Heimaliðið gerði slæm mistök á lokakaflanum. Missti boltann í tvígang á ódýran hátt og ÍBV skoraði tvö mörk í tómt mark KA/Þórs og var með þriggja marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 11:8.


ÍBV hélt frumkvæðinu framan af seinni hálfleik. KA/Þór skoraði fjögur mörk í röð og jafnaði metin, 17:17, þegar fimmtán mínútur voru til leiksloka. Rakel Sara Elvarsdóttir kom KA/Þór yfir, 23:22, þegar rétt innan við þrjár mínútur voru eftir. Var KA/Þór í fyrsta sinn í forystu í leiknum síðan í stöðunni 2:1. Eftir það tóku við spennuþrungnar lokamínútur.

Sókn ÍBV rann út í sandinn með misheppnaðri línusendingu þegar 45 sekúndur voru til leiksloka og staðan var jöfn, 23:23. Anna Þyrí Halldórsdóttir vann vítakast þegar 10 sekúndur voru eftir og Ásdís Guðmundsdóttir skoraði úr vítakastini. Hulda Bryndís Tryggvadóttir átti sendinguna á Önnu Þyrí þegar hún vann vítakastið dýrmæta.


ÍBV tók leikhlé þegar sjö sekúndur voru eftir og lagði upp fyrir síðustu sóknina. Hún fór í súginn og KA/Þór vann magnaðan sigur eftir að hafa átt undir högg að sækja allan leikinn.

Mynd / Egill Friðjón Bjarnason


Mörk KA/Þórs: Ásdís Guðmundsdóttir 7/4, Rut Arnfjörð Jónsdóttir 5/1, Rakel Sara Elvarsdótttir 5, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 2, Ásdís Ásta Heimisdóttir 2, Sólveig Lára Kristjánsdóttir 2, Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir 1.
Varin skot: Matea Lonac 10 skot – 31,3%.
Mörk ÍBV: Birna Berg Haraldsdóttir 7, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 4, Lina Cardell 3, Kolina Loszowa 3, Ásta Björt Júlíusdóttir 3/3, Harpa Valey Gylfadóttir 1, Elísa Elíasdóttir 1.
Varin skot: Marta Wawrzykowska 8 skot – 27,6%, Darja Zecevic 0.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -