Ýmir Örn Gíslason, landsliðsmaður í handknattleik, skoraði tvö mörk þegar Rhein-Neckar Löwen gerði jafntefli við svissneska liðið Kadetten Schaffhausen, 30:30, í D-riðli Evrópudeildarinnar í handknattleik karla í kvöld. Aðalsteinn Eyjólfsson er þjálfari svissneska meistaraliðsins.
Um var að ræða fyrri leik liðanna í keppninni en þau mætast aftur á morgun. Leikirnir voru á dagskrá keppninnar fyrir áramótin en þeim varð að slá á frest eftir að hópsmit kórónuveiru kom upp í herbúðum Kadetten í lok nóvember og í byrjun desember.
Löwen var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 17:13, eftir að hafa náð mest sex marka forskoti skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks. Leikmenn Kadetten bitu frá sér í síðari hálfleik og voru komnir með tveggja marka forskot um tíma, 24:22, þegar 15 mínútur voru til leiksloka.
Rhein-Neckar Löwen er efst í D-riðli með sjö stig eftir fjóra leiki. GOG er í öðru sæti með sex stig að loknum fimm leikjum. Kadetten er með fjögur stig eftir þrjá leiki eins og Trimo Trebnje. Eurofarm Pelister hefur þrjú stig eftir fimm leiki. Tatabanya rekur lestina í D-riðli án stiga þegar liðið hefur lokið við fjóra leiki.