- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ég er með alvöru stráka

Patrekur Jóhannesson þjálfari Stjörnunnar. Mynd/Skapti Hallgrímsson, akureyri.net
- Auglýsing -

„Framarar voru mikið betri og því miður þá lékum við alls ekki eins og lagt var upp með fyrirfram. Varnarleikur okkar hefur verið frábær upp á síðkastið eins og til dæmis gegn Val. Við vorum ekki sambandi lengi vel,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar eftir jafntefli, 29:29, í við Fram í Olísdeild karla í handknattleik í Framhúsinu í gærkvöld.


„Undirbúningurinn var fínn eins og hann hefur verið þannig að ég átta mig ekki á af hverju menn voru ekki tilbúnir í slaginn þegar á hólminn var komið. Kannski lögðum við meira í undirbúning fyrir þennan leik en oft áður. Til dæmis bauð stjórn handknattleiksdeildar okkur í hádegismat. Kannski truflaði það menn,“ sagði Patrekur sposkur á svip þegar handbolta.is hitti hann að máli.


Stjarnan átti undir högg að sækja frá upphafi og framan af var liðið langt undir, fimm til sex mörkum. Liðið náði hinsvegar þremur áhlaupum þar sem því tókst að saxa verulega á forskot Framara, m.a. í lokin. Stjörnumenn voru þá nærri því að fara með bæði stigin en Tandri Már Konráðsson kom Stjörnunni yfir, 29:28, þegar innan við tíu sekúndur voru til leiksloka. Var það í eina skiptið í leiknum sem Stjarnan var yfir.


„Ég er ánægður með að menn brotnuðu ekki þótt illa gengi lengi vel. Mörg lið hefðu gefist upp. En ég er með alvöru stráka sem gefast ekki upp. Við vorum fjórum mörkum undir í hálfleik en byrjuðum seinni hálfleik vel og náðum að jafna metin, 21:21.


Vandamálið okkar lengst af var varnarleikurinn. Það var sama hvað við reyndum ekkert gekk þangað til ég setti Dag Gautason út á móti hægri skyttunni. Þá náðum við loksins að hefta varnarleik Framara. Við höfum ekkert æft þessa vörn en ég notaði hana talsvert þegar ég var þjálfari austurríska landsliðsins. Segja má að þetta hafi verið fyrsta æfingin okkar með þessa vörn. Það segir manni mikið um hversu miklu máli skiptir að hugur fylgi máli. Það var lykilatriði okkar að þeirri leið að ná öðru stiginu og vera í dauðafæri að vinna leikinn,“ sagði Patrekur sem vildi ekki dvelja of mikið við jöfnunarmark Stefáns Darra Þórssonar fyrir Fram á síðustu sekúndu.

Staðan í Olísdeild karla.


„Skot Stefáns er langt utan af velli. Það var ekki auðvelt að verjast því. Það hefði getað haft afleiðingar ef farið hefði verið í hann í þessari stöðu. Ég tek það ekki af Stefáni. Hann gerði þetta vel. Tandri skoraði vel tuttugasta og níunda mark okkar eftir frábæran undirbúning Ólafs Bjarka,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar en lið hans situr í fjórða sæti með 12 stig að loknum 11 leikjum.

Næsti leikur Patreks og lærisveina verður á móti Selfossi í Hleðsluhöllinni á sunnudagskvöldið.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -