Glatt var á hjalla þegar flautað var til leiksloka í Thansen-Arena í Fredericia í kvöld þegar lið heimamanna vann SønderjyskE, 34:32, í hörkuspennandi leik að viðstöddum 1.965 áhorfendum í sjöundu umferð dönsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik í kvöld. Leikmenn Fredericia skoruðu tvö síðustu mörkin á síðustu 75 sekúndum viðureignarinnar.
Jafnt var að loknum fyrri hálfleik, 16:16.
Guðmundur Þórður Guðmundsson er þjálfari Fredericia-liðsins sem færðist upp í fjórða sæti deildarinnar með níu stig. Flest önnur lið deildarinnar hafa lokið sex leikjum svo staðan kann að breytast þegar frá líður. Er á meðan er.
Einar Þorsteinn Ólafsson skoraði eitt mark fyrir Fredericia og var einu sinni vísað af leikvelli, eftir hálfa aðra mínútu. Hann hélt sig innan vallar eftir það.
Í sjöunda himni á Sjálandi
Ekki aðeins voru leikmenn Fredericia í sjöunda himni eftir leiki kvöldsins í dönsku úrvalsdeildinni. Daníel Freyr Andrésson og samherjar í Lemvig-Thyborøn Håndbold kræktu í sín fyrstu stig á leiktíðinni er þeir lögðu Nordsjælland, 25:22, á Sjálandi.
Daníel Freyr fékk ekki mörg tækifæri í leiknum. Hann spreytti sig í þremur vítaköstum og varði eitt þeirra. Færeyingurinn og Framarinn fyrrverandi, Vilhelm Poulsen, skoraði þrjú mörk og gaf eina stoðsendingu í liði Lemvig-Thyborøn Håndbold.