Uppselt er á viðureign Íslands og Tékklands í undankeppni Evrópumótsins í handknattleik karla sem fram fer í Laugardalshöllinni á sunnudaginn. Hinn árvökuli markaðsstjóri HSÍ, Kjartan Vídó Ólafsson, staðfesti við handbolta.is að uppselt væri orðið.
Síðustu aðgöngmiðarnir seldust í gærkvöld eftir fyrri viðureign þjóðanna lauk í Brno í Tékklandi með fimm marka sigri heimamanna, 22:17.
Allt stefndi í að miðarnir seldust upp eins og handbolti.is sagði frá í fyrrkvöld en þá voru á þriðja hundrað miðar eftir.
Ljóst er þar með að á þriðja þúsund áhorfendur verða í Laugardalshöllinni á sunnudaginn og rífandi góð stemning þegar íslenska landsliðið leitar hefndar eftir skellinn í Brno. Leikurinn verður um leið sá fyrsti hjá A-landsliði karla í handknattleik í Laugardalshöllinni síðan í byrjun nóvember 2020. Þá var leikið fyrir luktum dyrum við Litáen í undankeppni EM 2022.
Leikurinn hefst klukkan 16 og er rétt að minna fólk á að mæta tímanlega. Leikmenn íslenska landsliðsins eru staðráðnir í að mæta til leiks eins og grenjandi ljón eftir tapið slæma í gærkvöld.