- Auglýsing -
- Sandra Erlingsdóttir og liðsfélagar töpuðu fyrir Oldenburg, 30:22, í gær í keppni um sæti fimm til átta í þýsku 1. deildinni í handknattleik kvenna. Leikið var í Oldenburg. Sandra skoraði ekki mark í leiknum. Hún átti eitt markskot sem missti marks og eina stoðsendingu. Oldenburg mætir Bensheim/Auerbach á fimmtudaginn í leik um 5. sætið í úrslitakeppni þýsku 1. deildarinnar.
- Sennilega var leikurinn í Oldenburg í gær sá síðasti hjá Söndru með TuS Metzingen. Eftir tveggja ára veru hjá félaginu og alls fimm ár ytra flytur Sandra heim til Vestmannaeyja í sumar og gengur til liðs við ÍBV.
- Storhamar leikur til úrslita í úrslitakeppni norsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik kvenna. Storhamar vann Larvik öðru sinni í gær, 30:22. Axel Stefánsson er einn þjálfara Storhamar.
- Storhamar mætir annað hvort Sola eða Tertnes í úrslitum. Sola vann fyrstu viðureignina en liðin mætast öðru sinni í dag.
- Frakkar unnu EHF-bikarkeppni landsliða í karlaflokki í gær. Þeir lögðu Norðmenn, 35:34, og luku keppni með fullu húsi stiga, 12 af 12 mögulegum.
- Svíar unnu heimsmeistara Dani, 33:30, í lokaumferð EHF-bikarsins í gær. Danska liðið var án margra öflugra leikmanna. Danir höfnuðu engu að síður í öðru sæti, Svíar í þriðja sæti. Norðmenn ráku lestina án stiga. EHF-bikarinn er fjögurra þjóða mót sem leikið er samhliða undankeppni EM karla.
- Þátttökuþjóðirnar fjórar tóku ekki þátt í undankeppninni vegna þess að þrjár þeirra verða gestgjafar EM 2026 og ein, Frakkar, eru Evrópumeistarar.
Vinsælt lesefni:
- Auglýsing -