- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sara Sif tryggði bæði stigin

Sara Sif Helgadóttir, markvörður Vals er meidd og verður ekkert meira með Val á keppnistímabilinu. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Markvörðurinn Sara Sif Helgadóttir sá til þess að Valur fékk bæði stigin úr toppslag Olísdeildar kvenna í handknattleik í kvöld, 25:24. Hún varði síðasta skot Framara að marki Vals á síðustu sekúndu leiksins. Mínútu áður hafði Thea Imani Sturludóttir skorað 25. mark Valsliðsins í þessum stórskemmtilega handboltaleik tveggja efstu liða Olísdeildarinnar sem fram fór í Origohöll Valsara við Hlíðarenda.


Fram er áfram efst í deildinni með 23 stig eftir 15 leiki. Liðið er stigi á undan Val sem hefur leikið einum leik meira. Íslandsmeistarar KA/Þórs eru í þriðja sæti með 19 stig og eiga inni leiki á efstu liðin tvö.


Viðureignin var jöfn og spennandi frá upphafi til enda. Jafnt var að loknum fyrri hálfleik, 13:13. Valur var frekar með frumkvæðið í jöfnum síðari hálfleik. Sjö mínútum fyrir leikslok var forskot Vals tvö mörk 24:22.


Bæði lið söknuðu leikmanna. Ragnheiður Júlíusdóttir var fjarverandi í Framliðinu auk þess sem Stella Sigurðardóttir sneri sig á vinstri ökkla eftir rúmlega tíu mínútur í síðari hálfleik.


Mariam Eradze var heldur ekki með Val vegna veikinda. Hún eins og Ragnheiður hefur verið fjarri góðu gamni upp á síðkastið en vonandi ná þessar góðu handknattleikskonur heilsu sem fyrst svo þær geti látið ljós sitt skína í síðari hluta keppnistímabilsins.


Mörk Vals: Lovísa Thompson 7, Thea Imani Sturludóttir 5, Elín Rósa Magnúsdóttir 5, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 3/3, Hildigunnur Einarsdóttir 2, Morgan Marie Þorkelsdóttir 1, Auður Ester Gestsdóttir 1.
Varin skot: Sara Sif Helgadóttir 14, 36,8%.
Mörk Fram: Perla Ruth Albertsdóttir 6, Emma Olsson 6, Hildur Þorgeirsdóttir 5, Karen Knútsdóttir 4, Þórey Rósa Stefánsdóttir 2, Erna Guðlaug Gunnarsdóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 16, 39%.

Öll tölfræði leiksins er hjá HBStatz.

Stöðu og næstu leiki í Olísdeild kvenna er að finna hér.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -