- Auglýsing -
- Børge Lund hefur framlengt samning sinn um þjálfun norska meistaraliðsins Elverum til ársins 2025. Orri Freyr Þorkelsson og Aron Dagur Pálsson leika með Elverum sem mætir Arendal í dag í fjórða úrslitaleik liðanna í úrslitakeppni úrvalsdeildarinnar. Elverum hefur verið yfirburðarlið í norskum karlahandknattleik um langt árabil. Lund tók við þjálfun Elverum fyrir tveimur árum.
- Ómar Ingi Magnússon var að sjálfsögðu í úrvalsliði 33. og næst síðustu umferðar þýsku 1. deildarinnar sem valið var í gærmorgun. Ómar Ingi fór á kostum í fyrrakvöld þegar Magdeburg vann Leipzig, 36:31, á heimavelli Leipzig. Hann skoraði 13 mörk og var með fullkomna skotnýtingu.
- Hægri hornamaðurinn Alex Máni Oddnýjarson hefur skrifað undir nýjan þriggja ára samning við Fjölni. Alex er mikilvægur hlekkur í liði Fjölnis og er á sínu þriðja ári í meistaraflokki þrátt fyrir ungan aldur.
- Sara Björg Davíðsdóttir hefur endurnýjað samning sinn við Fjölni/Fylki. Sara Björg er traustur leikmaður, jafnt í vörn sem sókn liðsins sem leikur í Grill66-deildinni á næstu leiktíð.
- Benjamin Buric markvörður Flensburg og landsliðs Bosníu verður frá keppni næstu mánuði eftir að hafa meiðst á æfingu hjá Flensburg á dögunum. Félagið segir í tilkynningu að meiðslin séu svo alvarleg að Buric verður fjarverandi í fyrstu leikjum liðsins á næsta keppnistímabili.
- Ekki nóg með það heldur verður Jim Gottfridsson ekki með Flensburg á morgun þegar liðið sækir Füchse Berlin heim í lokaumferð þýsku 1. deildarinnar. Gottfridsson hefur ekki verið með í síðustu tveimur leikjum Flensburg, gegn Lemgo og Bergischer. Hann verður að öllu óbreyttu klár í slaginn þegar nýtt keppnistímabil hefst í byrjun september.
- Auglýsing -