- Hafþór Már Vignisson og nýir samherjar hans í Empor Rostock unnu Nordhorn, 22:20, á heimavelli í gærkvöld og tryggðu sér þar með sæti í 2. umferð þýsku bikarkeppninnar í handknattleik. Um var að ræða fyrsta opinbera kappleik Akureyringsins fyrir Empor Rostock. Hann skoraði eitt mark en fjögur skot geiguðu. Bæði lið verða í 2. deild á komandi leiktíð sem hefst á næstu dögum.
- Kolbrún Arna Garðarsdóttir hefur framlengt samning sinn hjá liði Fjölnis/Fylkis til tveggja ára. Fjölnir/Fylkir leikur í Grill66-deildinni á næstu leiktíð. Kolbrún Arna hefur verið ein burðarása liðsins síðustu ár.
- Svissneski landsliðsmaðurinn Philip Novak hefur ákveðið að snúa baki við handknattleik og einbeita sér að námi. Novak er 23 ára gamall og hefur leikið með Kadetten Schaffhausen allan sinn feril frá barnsaldri. Síðustu tvö ár hefur Novak leikið undir stjórn Aðalsteins Eyjólfssonar og varð meistari með liðinu í Sviss í vor.
- Auglýsing -