Núverandi þjálfarateymi meistaraflokks FH í handknattleik kvenna lætur af störfum í lok keppnistímabilsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá formanni handknattleiksdeildar FH á Facebook í dag. Í henni segir að um sameiginlega niðurstöðu sé að ræða milli þjálfaranna og stjórnarinnar. Ekki kemur fram hver eða hverjir taka við þjálfun liðsins.
Guðmundur Pedersen, Jörgen Freyr Ólafsson og Magnús Sigmundsson eru á sínu öðru ári með kvennalið FH. Guðmundur og Magnús tóku við þjálfun liðsins snemma árs 2021 en Jörgen bættist í hópinn um sumarið.
Staðan og næstu leikir í Grill 66-deildum.
FH er um þessar mundir í 5. sæti Grill 66-deildar kvenna á sínu öðru ári í röð í deildinni. FH féll úr Olísdeild kvenna vorið 2021.
FH lék í undanúrslitum bikarkeppninnar haustið 2021 undir stjórn þremenninganna og var í undanúrslitum umspils um sæti í Olísdeild í vor sem leið en féll úr leik eftir viðureignir við ÍR.