- Auglýsing -
- Auglýsing -

Skref fram á við að ganga til liðs við Sporting

Orri Freyr Þorkelsson leikmaður Sporting Lissabon. Mynd/Sporting
- Auglýsing -

„Ég er ótrúlega spenntur að takast á við að leika með og kynnast nýjum samherjum í annarri deild og sjá um leið hvernig handboltinn er í samanburði við Noreg þar sem ég hef verið síðustu tvö ár. Til viðbótar ríkir eftirvænting að leika með liðinu í Evrópudeildinni sem er mjög sterk,“ segir handknattleiksmaðurinn Orri Freyr Þorkelsson í samtali við handbolta.is.

Orri Freyr hefur fært sig suður til Lissabon í Portúgal eftir tveggja ára veru hjá Elverum í Noregi. Í morgun var loksins opinbert að Hafnfirðingurinn gangi til liðs við Sporting Lissabon. Tilkynningin hefur legið í loftinu mánuðum saman.

Orri Freyr Þorkelsson er 24 ára gamall vinstri hornamaður sem lék með Haukum upp yngri flokka og upp í meistaraflokk. Hann gekk til liðs við Elverum vorið 2021 og varð norskur bikar og landsmeistari með Elverum 2022. Liðið hafnaði í öðru sæti á síðasta keppnistímabili.
Orri Freyr á níu A-landsleiki að baki. Hann var í EM-liði Íslands í Ungverjalandi 2022 þegar Ísland hafnaði í sjötta sæti og skoraði átta mörk í átta leikjum á mótinu. Fyrsti A-landsleikurinn var í Laugardalshöll í nóvember 2020 gegn Litáen í undankeppni EM. 

Markmiðið er vinna titilinn

Sporting tapaði nánast með minnsta mun fyrir Porto í kapphlaupinu um portúgalska meistaratitilinn í vor. Stórhugur ríkir innan félagsins um að slíkt endurtaki sig ekki að ári liðnu.

„Markmiðið er að vinna titilinn á næstu leiktíð. Liðið er mjög gott og hefur verið undanfarin ár og verið nærri því að vinna titla bæði heimafyrir og í Evrópu,“ segir Orri Freyr og bendir á að bæði í vor og vorið 2022 hafi Sporting fallið út á einu marki fyrir Montpellier og Magdeburg í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Magdeburg í fyrra og Montpellier ár.

Orri Freyr Þorkelsson fagnar með Ýmir Erni Gíslasyni í leik á EM 2022. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Skref fram á við

„Fyrir mig er það skref fram á við að koma til Sporting eftir tvö ár hjá Elverum. Samanborið við síðari árið hjá Elverum þá er Sporting með betra lið um þessar mundir. Ég er stoltur af því að hafa skrifað undir samning við jafn þekkt og stórt lið sem er meðal annars með frábært knattspyrnulið á sínum snærum. Um er að ræða heiður og mjög spennandi verkefni að takast á við að leika með Sporting og freista þess að festa sig í sessi,“ segir Orri Freyr sem er einn fjögurra nýrra leikmanna sem félagið hefur tilkynnt um á síðustu dögum.

Tveir Íslendingar

„Breiddin í leikmannahópnum verður meiri en áður. Það er alveg ljóst, ekki síst í Evrópuleikjunum,“ segir Orri Freyr sem verður annar Íslendingurinn í portúgölsku 1. deildinni á næstu leiktíð. Hinn er Stiven Tobar Valencia liðsmaður höfuðandstæðingsins í höfuðborginni, Benfica.

Þjálfari Sporting er Ricardo Costa fyrrverandi handknattleiksmaður. Synir hans Martim og Francisco Mota da Costa (Kiko), leika með liðinu. Sá síðarnefndi er 18 ára og örvhent skytta og þykir eitt mesta efni í evrópskum  handknattleik um þessar mundir. 

Tekst á við verkefnin

Orri Freyr segist ekki vita enn sem komið hvort honum sé ætlað minna eða stærra hlutverk í upphafi ferilsins hjá félaginu. „Ég veit ekkert um það enn sem komið er. Ég kem í stað leikmanns sem lék talsvert mikið á síðasta tímabili. Auðvitað er alltaf einhver rótering á milli leikja og manna en ég tekst bara á við það verkefni sem mér verður falið hverju sinni þótt vissulega vilji maður alltaf leika sem mest,“ segir Orri Freyr sem kom til Lissabon í gær, viku áður en æfingatímabilið hefst.

Mættur í tíma

„Ég átti eftir að ganga frá ýmsum málum eins og varðandi íbúð og þess háttar. Það er bara gott að vera mættur í tíma ganga frá lausum endum áður en æfingar hefjast. Ég er bara mjög spenntur,“ sagði Orri Freyr Þorkelsson handknattleiksmaður Sporting Lissabon.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -