Strákarnir í U19 ára landsliðinu ætla að snúa við blaðinu í dag þegar þeir mæta japanska landsliðinu í annarri umferð á heimsmeistaramótinu í handknattleik í Króatíu. Flautað verður til leiks klukkan 13.30.
Heimir Ríkarðsson annar þjálfara liðsins segir alla staðráðna í að komast inn á beinu brautina með sigri í dag. Mótið er rétt að hefjast og næg tækifæri framundan.
HMU19: Dagskrá, úrslit og staðan, riðlakeppni
Ólíkur andstæðingur
Japanska landsliðið tapaði með átta marka mun fyrir Egyptum í gær eftir að hafa verið í hörkuleik lengst af. Ljóst að andstæðingur íslenska liðsins verður ólíkur þeim sem það mætti í gær. Um leið verður það ný reynsla fyrir leikmennina að mæta snöggum og fljótum leikmönnum japanska liðsins.
„Viðureign Egyptalands og Japans var á undan okkar leik við Tékka. Það var hörkuleikur. Japanir voru með leik allt fram á síðustu mínúturnar þegar Egyptum tókst að innsigla sigurinn,” sagði Heimir við handbolta.is í gær.
„Japanir eru mjög fljótir. Þeir skoruðu mörg mörk eftir hraðaupphlaup og hraða miðju. Þeir eru tæknilega góðir og snöggir en við mætum þeim af krafti og munum ekkert gefa eftir,“ sagði Heimir.
Streymi og textalýsing
Eins og áður segir hefst leikurinn klukkan 13.30 að íslenskum tíma og verður í textalýsingu á handbolti.is auk þess sem streymi frá viðureigninni verður einnig aðgengilegt á handbolti.is.
Hefðbundin dagskrá
„Við verðum bara með okkar hefðbundna prógramm á leikdag. Eftir morgunmat verður fundur þar sem við leggjum á ráðin. Síðan tekur við gönguferð og hádegismatur áður en við fundum aftur skömmu áður en við leggjum af stað í leikinn. Það er alls engan bilbug á okkur að finna,“ sagði Heimir Ríkarðsson þjálfaru U19 ára landsliðs karla sem horfir vongóður fram á nýjan dag.