- Auglýsing -
- Auglýsing -

Valur hefur þriggja marka forskot eftir fyrri leikinn

Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals. Mynd/J.L.Long
- Auglýsing -

Valur vann í dag fyrri viðureignina við Granitas-Karys í fyrstu umferð í Evrópubikarkeppninni í handknattlleik karla, 27:24. Leikið var í Garliava í Litáen. Liðin mætast öðru sinni á sama stað klukkan 11 í fyrramálið og ráða samanlögð úrslit leikjanna hvort liðið tekur sæti í næstu umferð. Hitt heltist úr lestinni.

„Ég er spenntur fyrir að leika aftur við þá á morgun,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson í samtali á samfélagsmiðlum Vals.


Fyrirfram vissu Valsmenn lítið um styrkleika liðsins Granitas-Karys. Engar upptökur fengust af leikjum liðsins frá nýbyrjuðu tímabil. Aðeins lágu fyrir upplýsingar frá síðasta tímabili en vitað var að nokkrar breytingar höfðu orðið á leikmannahópi Granitas á milli tímabila.

Ef undan eru skildar upphafs mínútur leiksins voru Valsmenn með yfirhöndina í leiknum til loka. Sigurinn var hinsvegar torsóttur. Eftir fyrri hálfleik var munurinn fimm mörk, 14:9, Val í vil.

Heimamönnum óx ásmegin í síðari hálfleik. Þeim tókst að jafna, m.a. 20:20, og hanga í humátt á eftir Valsmönnum síðustu mínúturnar. Úlfar Páll Monsi Þórðarson kom Val fjórum mörkum yfir, 27:23, þegar 70 sekúndur voru til leiksloka. Þrátt fyrir ákafan vilja þá tókst leikmönnum Granitas-Karys ekki að skora nema eitt mark.


Mörk Vals: Viktor Sigurðsson 4, Úlfar Páll Monsi Þórðarson 4, Ísak Gústafsson 4, Allan Norðberg 4, Magnús Óli Magnússon 3, Tjörvi Týr Gíslason 2, Vignir Stefánsson 2, Andri Finnsson 2, Benedikt Gunnar Óskarsson 1, Alexander Petersson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 9, 32,1% – Arnar Þór Fylkisson 1, 20%.

Eins og áður segir hefst síðari leikurinn klukkan 11 í fyrramálið. Handbolti.is ætlar að gera sitt besta til þess að fylgjast með leiknum í textalýsingu.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -