- Auglýsing -
- Auglýsing -

Valur stefnir hraðbyri að deildarmeistaratitlinum

Þórey Anna Ásgeirsdóttir skoraði 10 mörk fyrir Val í kvöld gegn ÍR. Mynd/Valur
- Auglýsing -

Valur stefnir hraðbyri að deildarmeistaratitlinum í Olísdeild kvenna í handknattleik. Í kvöld unnu Valskonur liðsmenn ÍR með yfirburðum í upphafsleik 18. umferðar, 34:20, í N1-höllinni á Hlíðarenda. Þetta var 17. sigur Vals í 18 leikjum og nokkuð ljóst að fátt virðist geta komið í veg fyrir að liðið verði efst þegar upp verður staðið að lokinni 21. umferð.

Nýliðar ÍR hafa gert það svo sannarlega gott á keppnistímabilinu. Þeir hittu svo fyrir ofjarla sína að þessu sinni. Valur skoraði 10 af fyrstu 11 mörkum leiksins. Segja má að á brattann hafi verið að sækja hjá ÍR-ingum eftir það. Leikmenn ÍR mega eiga það að þeir lögðu aldrei árar í bát þótt mjög hafi syrt í álinn snemma. Þeir reyndu áfram að klífa þrítugan hamarinn allt hvað af tók.

Staðan að loknum fyrri hálfleik var 22:7, Val í vil sem lagði grunn að forskoti sínu með afar góðum varnarleik og markvörslu auk hraðaupphlaupa í fyrri hálfleik.

ÍR situr í fimmta sæti með sextán stig og er alveg öruggt um sæti í fyrstu umferð úrslitakeppni Olísdeildar.

Karen Tinna Demian lék ekki með ÍR að þessu sinni eftir að hafa meiðst gegn KA/Þór um síðustu helgi.

Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.

Mörk Vals: Þórey Anna Ásgeirsdóttir 10/2, Hildigunnur Einarsdóttir 6, Thea Imani Sturludóttir 5, Elín Rósa Magnúsdóttir 4, Lilja Ágústsdóttir 3, Hildur Björnsdóttir 2, Ágústa Rún Jónasdóttir 1, Ásdís Þóra Ágústsdóttir 1, Guðrún Hekla Traustadóttir 1, Sigríður Hauksdóttir 1.
Varin skot: Sara Sif Helgadóttir 12, 50% – Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir 2, 20%.

Mörk ÍR: Matthildur Lilja Jónsdóttir 9/2, Vaka Líf Kristinsdóttir 3, Ásthildur Bertha Bjarkadóttir 2, Sylvía Sigríður Jónsdóttir 2, Guðrún Maryam Rayadh 2, Anna María Aðalsteinsdóttir 1, Maria Leifsdóttir 1.
Varin skot: Ísabella Schöbel Björnsdóttir 9, 36% – Hildur Öder Einarsdóttir 2, 10%.

Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -