Haukar náði fram ákveðinni hefnd eftir það sem á undan er gengið í samskiptum sínum við ÍBV með því að leggja lið félagsins, 28:24, í Olísdeild karla í handknattleik á Ásvöllum í kvöld. Haukar voru fimm mörkum yfir í hálfleik, 18:13, en minnstu mátti muna í síðari hálfleik að þeir misstu forskotið í hendur Eyjamanna. Nokkrum sinnum var munurinn aðeins eitt mark, síðast 25:24, þegar rétt innan við þrjár mínútur voru eftir.
Auk annars var sigurinn Haukum kærkominn eftir tvö eins marks töp í röð í deildinni. Hafnarfjarðarliðið situr áfram í fimmta sæti en hefur náð saman 20 stigum í 17 leikjum. Framundan eru leikir við slóvenska liðið RK Jeruzalem Ormoz á heimavelli á laugardaginn í fyrri umferð í 16-liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar.
ÍBV er fjórum stigum á eftir Haukum í sjöunda sæti eftir 16 leiki.
Haukar sterkari – rautt spjald
Haukar voru talsvert sterkari í fyrri hálfleik á Ásvöllum í kvöld. Sóknarleikurinn gekk lipurlega og varnarleikurinn var fínn gegn fremur rólegum Eyjamönnum sem virtust ekki hafa náð áttum eftir maraþonleik við FH á laugardaginn í bikarkeppninni.
Haukar urðu fyrir áfalli á 14. mínútu fyrri hálfleiks þegar Skarphéðinn Ívar Einarsson fékk beint rautt spjald fyrir djarfa framgöngu í vörninni. Skarphéðinn hefur verið einna besti leikmaður Hauka á leiktíðinni.
Bitu í skjaldarrendur
Leikmen ÍBV bitu í skjaldarrendur í upphafi síðari hálfleiks, ekki síst hertu þeir upp hugann við varnarleikinn. Fljótlega minnkaði bilið á milli liðanna og á 13. mínútu minnkað Sigtryggur Daði Rúnarsson muninn í eitt mark þegar hann skoraði úr vítakasti fyrir ÍBV, 21:20. Í kjölfarið fylgdi fimm mínútna kafli þar sem leikmönnum ÍBV voru afar mislagaðar hendur í sóknarleiknum.
Haukar gengu á lagið og náðu þriggja marka forskoti og þrátt fyrir að leika ekki eins vel og þeir best geta þá tókst þeim að halda út og vinna. Birkir Snær Steinsson sá til þess að tryggja endanlega stigin tvö með sannkölluðu langskoti í mark ÍBV, 27:24, þegar mínúta var eftir af leiktímanum.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
Mörk Hauka: Andri Fannar Elísson 8/3, Adam Haukur Baumruk 4, Birkir Snær Steinsson 4, Hergeir Grímsson 3/1, Össur Haraldsson 2, Skarphéðinn Ívar Einarsson 2, Freyr Aronsson 2, Sigurður Snær Sigurjónsson 1, Þráinn Orri Jónsson 1, Hinrik Hugi Heiðarsson 1.
Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 10, 30,3% – Vilius Rasimas 0
Mörk ÍBV: Sigtryggur Daði Rúnarsson 10/5, Sveinn Jose Rivera 3, Daniel Esteves Vieira 3, Nökkvi Snær Óðinsson 2, Dagur Arnarsson 2, Gabríel Martinez Róbertsson 2, Andri Erlingsson 1, Gauti Gunnarsson 1.
Varin skot: Petar Jokanovic 12, 31,6% – Pavel Miskevich 0.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.