Kristjáni Erni Kristjánssyni, Donna, og liðsfélögum í Skanderborg AGF tókst að herja út annað stigið gegn SønderjyskE á heimavelli í kvöld í viðureign liðanna í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik, 26:26. Á sama tíma vann Bjerringbro/Silkeborg, með Guðmund Braga Ástþórsson innanborðs, nauman sigur á Ribe-Esbjerg á heimavelli, 33:32.
Donni var markahæstur hjá Skanderborg með átta mörk úr 16 skotum. Hann átti einnig tvær stoðsendingar. Skanderborg-liðið átti undir högg að sækja lengst af í síðari hálfleik en tókst af harðfylgi að jafna metin í lokin. Skanderborg er í fjórða sæti með 28 stig þegar fjórar umferðir eru eftir.
Á síðustu stundu
Anders Zachariassen skoraði sigurmark Bjerringbro/Sikeborg á síðustu sekúndu leiksins við Ribe-Esbjerg á heimavelli. Hann náði frákasti eftir að Ágúst Elí Björgvinsson, markvörður Ribe-Esbjerg, hafði varið skot frá Nicolai Læsø. Súrt fyrir leikmenn Ribe-Esbjerg sem hefðu svo sannarlega þegið annað stigið í botnbaráttunni.
Guðmundur Bragi skoraði eitt mark fyrir Bjerringbro/Silkeborg. Liðið er í fimmta sæti með 27 stig, stigi á eftir Donna og félögum. Ribe-Esbjerg er í 12. sæti af 14 liðum.
Átta skot og eitt mark
Ágúst Elí stóð á milli stanganna í marki Ribe-Esbjerg mestan hluta leiksins og varði 8 skot, 23%, þar af sex skot í síðari hálfleik. Einnig skoraði Hafnfirðingurinn eitt mark. Elvar Ásgeirsson skoraði ekki mark að þessu sinni en átti þrjár stoðsendingar.
Staðan í dönsku úrvalsdeildinni: