Valur2 lagði FH í fyrsta leik 18. og síðustu umferðar Grill 66-deildar kvenna í handknattleik í N1-höllinni á Hlíðarenda í kvöld, 29:25, eftir að hafa verið þremur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 15:12.
Vegna utanferðar Valsliðsins í fyrramálið í leik í Evrópubikarkeppninni og að leikmenn liðsins eiga einnig sæti í leikmannahópi Vals2 var leiknum flýtt. Vaninn er að öll síðasta umferðin fari fram á sama tíma. Gerð var undantekning vegna ferðarinnar og einnig sökum þess að úrslit leiksins hafa ekki áhrif á stöðu þeirra liða sem berjast um sæti í umspili Olísdeildar.
Valur2 er í fjórða sæti deildarinnar eftir leikinn með 24 stig og er ekki á leiðinni í umspilið. Það gera FH-ingar ekki heldur. FH siglir lygnan sjó í sjöunda sæti hvernig sem aðrir leikir fara í síðustu umferðinni sem fram fer á sunnudaginn.
FH jafnaði metin um miðjan síðari hálfleik í kvöld, 22:22, og hélt í við Val næstu mínúturnar áður en leiðir skildu á ný á endasprettinum.
Staðan og næstu leikir í Grill 66-deildum.
Mörk Vals2: Ásthildur Jóna Þórhallsdóttir 7, Arna Karitas Eiríksdóttir 6, Guðrún Hekla Traustadóttir 5, Ásrún Inga Arnarsdóttir 4, Sólveig Þórmundsdóttir 4, Sara Lind Fróðadóttir 2, Eva Steinsen Jónsdóttir 1.
Varin skot: Elísabet Millý Elíasardóttir 8, Oddný Mínervudóttir 3.
Mörk FH: Thelma Dögg Einarsdóttir 5, Aníta Björk Valgeirsdóttir 4, Eva Gísladóttir 3, Fanney Þóra Þórsdóttir 3, Hildur Guðjónsdóttir 3, Telma Medos 3, Hafdís Hera Arnþórsdóttir 2, Gyða Kristín Ásgeirsdóttir 1, Ragnhildur Edda Þórðardóttir 1.
Varin skot: Sara Xiao Reykdal 12.
Tölfræði leiksins á HBritari.