- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

ÓL: Ungverjar sendu Spánverja heim

Ungverjinn Petra Vamos á auðum sjó í viðureigninni við Svía í morgun á ÓL. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Ungverska landsliðið í handknattleik kvenna sendi Spánverja heim af Ólympíuleikunum í morgun. Ungverjar unnu Svíþjóð, 26:23, í síðasta leik B-riðils og kræktu þar með í fjórða sæti riðilsins. Spánverjar féllu niður í fimmta sæti og hafa þar með lokið keppni á leikunum eins og landslið Brasilíu sem rak lestina í riðlinum.


Ungverjar töpuðu þremur fyrstu leikjum sínum á Ólympíuleikunum og virtust hafa misst móðinn og fengu m.a. skell gegn Rússum. Ungverska liðið reis úr öskustónni og vann Spán í fyrradag örugglega, 29:25, og fylgdi sigrinum eftir með því að leggja Svíþjóð á sannfærandi hátt í morgun.


Ungverjar og Spánverjar eru jafnir að stigum en þær ungversku halda áfram keppni á sigri í innbyrðis leik. Ljóst er að Ungverjar mæta efsta liði A-riðils, Evrópumeisturum Noregs, í átta liða úrslitum á miðvikudaginn.


Þrátt fyrir tapið þá urðu Svíar efstir í B-riðli. Svíar mæta væntanlega Suður Kóreu í átta liða úrslitum.

Rússar eru í öðru sæti í B-riðli og leika við Svartfjallaland eða Holland í átta lið úrslitum. Í þriðja sæti B-riðils höfnuðu Frakkar og keppa við Svartfellinga eða Hollendinga á miðvikudag en framundan er uppgjör Hollands og Svartfjallalands um annað sæti A-riðils.


Eftir jafnan fyrri hálfleik í morgun á milli Svía og Ungverja tóku þeir síðarnefndu öll völd á leikvellinum í síðari hálfleik og náðu fjögurra til fimm marka forskoti sem sænska landsliðinu tókst að aldrei að saxa verulega á.


Szandra Szollisi-Zacsik, Greta Marton, Katrin Klujber, Noemi Hafra og Viktoria Lukacs skoruðu fjögur mörk hver fyrir ungverska landsliðið. Hin þrautreynda Blanka Bíró lék vel í markinu og var með 36% hlutfallsmarkvörslu.


Nathalie Hagman og Jenny Carlsson skoruðu fimm mörk hvor fyrir sænska landsliðið. Íslendingurinn Kristín Þorleifsdóttir skoraði einu sinni.

Spánverjar verða gestgjafar heimsmeistaramótsins í desember. Það er þeim því nokkurt áfall að komast ekki í átta liða úrslit með liðið sem bundnar eru miklar vonir við á HM.


Úrslit í B-riðli í lokaumferðinni:
Frakkland – Brasilía 29:22.
Spánn – Rússland 31:34.
Ungverjaland – Svíþjóð 26:23.
Lokastaðan:

Standings provided by SofaScore LiveScore

Átta liða úrslit á miðvikudag:

Noregur – Ungverjaland.
Svíþjóð – Suður Kórea/Japan.
Rússland – Holland eða Svartfjallaland.
Frakkland – Holland eða Svartfjallaland.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -