Ólympíu- og heimsmeistarar Dana leika að minnsta kosti til undanúrslita í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í Tokýó. Þeir unnu öruggan sigur á Norðmönnum, 31:25, í átta liða úrslitum í morgun. Danska liðið sýndi flestar sínar bestu hliðar í leiknum, réði lögum og lofum í síðari hálfleik gegn ráðalausum Norðmönnum sem virtust ætla að láta Sander Sagosen taka alla ábyrgð á að vinna frændur sína.
Danir leika við Evrópumeistara Spánverja í undanúrslitum á fimmtudaginn, snemma morguns að íslenskum tíma.
Eftir jafnan fyrri hálfleik var Danmörk marki yfir, 13:12. Danska landsliðið sýndi allar sína bestu hliðar í síðari hálfleik. Þeir tóku leikinn föstum tökum strax í upphafi og brutu Norðmenn jafnt og þétt niður. Forskotið var orðið fjögur mörk eftir um tíu mínútur. Norðmenn virtust ráðalausir gegn afar sterkri vörn danska liðsins þar sem Henrik Möllegaard og Lasse Andersson réðu ríkjum. Ekki bætti úr skák fyrir Norðmenn að Niklas Landin varði vel, ekki síst frá Sagosen sem var ætlað að bera uppi sóknarleikinn.
Danir fengu framlag frá öllum sínum leikmönnum meðan allt annað var upp á teningnum í norska liðinu. Þar var lítið að frétta og t.d. var frammistaða Harald Reinkind hrein vonbrigði. Markvarslan var engin og varnarmenn norska liðsins í eltingaleik við dönsku sóknarmennina, eltingaleik sem þeir réðu ekki við.
Mikkel Hansen og Jacob Holm skoruðu átta mörk hvor fyrir danska liðið. Marhias Gidsel skoraði fimm mörk en varð að fara af leikvelli seint í leiknum eftir að hafa fengið högg á nefið, að því er virtist.
Sagosen skoraði átta mörk fyrir Noreg. Reinkind skoraði fimm sinnum, þar af þrjú á lokakaflanum þegar úrslitin voru ráðin.