Fram vann nauman sigur á Haukum í kaflaskiptri fyrstu viðureign liðanna í átta liða úrslitum Olísdeildar karla í handkanttleik í Lambhagahöllinni í Úlfarsárdal í kvöld, 28:27. Næsta viðureign liðanna verður á mánudaginn á Ásvöllum klukkan 19.30. Fram var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 16:14.
Haukar voru sterkari framan af fyrri hálfleik áður en leikurinn sveiflaðist yfir á Framara sem náðu upp góðri stemningu og varnarleik. Eftir fylgdi góð markvarsla Arnórs Mána Daðasonar.
Framliðið hóf síðari hálfleik var miklum krafti og virtist ætla að keyra yfir Haukana sem voru hálf ráðalausir. Þegar flestir voru við að telja Hauka út þá snerist lukkan með þeim. Leikmenn Fram voru værukærir og misstu niður sex marka forskot, meira og minna á síðustu 10 mínútunum. Varnarleikur Hauka batnaði og Aron Rafn Eðvarðsson varði afar vel eftir að hann kom í markið á ný. Haukum tókst að minnka muninn í tvígang í eitt mark á allra síðustu mínútunum. Nær komust þeir ekki og Framarar sluppu með skrekkinn.
Rautt spjald og meiðsli
Skarð voru höggvin í bæði lið í leikum. Össur Haraldsson, leikmaður Hauka, fékk beint rautt spjald eftir rúmlega 16 mínútur þegar hann féll óvart á leikmann Fram í hraðaupphlaupi.
Á sjöttu mínútu síðari hálfleiks meiddist Magnús Öder, varnarmaðurinn sterki hjá Fram, missteig sig og kom ekkert frekar við sögu. Hann er spurningamerki fyrir næstu viðureign liðanna.
Vantaði leikmenn
Geir Guðmundsson og Ólafur Ægir Ólafsson léku ekki með Haukum í kvöld. Annar er meiddur og hinn er veikur.
Tryggvi Garðar Jónsson var ekki með Fram vegna meiðsla og einnig var Þorsteinn Gauti Hjálmarsson frá vegna meiðsla.
Olís karla: Leikjadagskrá, úrslitakeppni 2025
Fram – Haukar 28:27 (16:14).
Mörk Fram: Rúnar Kárason 7, Marel Baldvinsson 6, Reynir Þór Stefánsson 6, Ívar Logi Styrmisson 4/3, Dagur Fannar Möller 2, Eiður Rafn Valsson 2, Erlendur Guðmundsson 1.
Varin skot: Arnór Máni Daðason 13/1, 32,5% – Breki Hrafn Árnason1/1, 100%.
Mörk Hauka: Skarphéðinn Ívar Einarsson 6, Birkir Snær Steinsson 5, Hergeir Grímsson 4, Þráinn Orri Jónsson 3, Andri Fannar Elísson 2/1, Sigurður Snær Sigurjónsson 2, Össur Haraldsson 2/1, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 2.
Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 12/1, 38,7% – Vilius Rasimas 2, 18,2%.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.