ÍBV tókst að halda í við Hauka í 35 mínútur í fyrsta leik liðanna í úrslitakeppni kvenna í handknattleik í kvöld. Lengra komst ÍBV ekki og Haukar juku eftir það forskot sitt og unnu með sex marka mun 26:20, á Ásvöllum. Næsta viðureign liðanna fer fram í Vestmannaeyjum á laugardaginn og þann leik verður ÍBV að vinna til þess að fá oddaleik á Ásvöllum á þriðjudaginn.
ÍBV var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 13:11, og náði mest fjögurra marka forskoti snemma í síðari hálfleik, 16:12. Haukar svöruðu þá með sjö mörkum í röð á nærri tíu mínútna kafla áður en Eyjaliðið svaraði fyrir sig.
Eftir það var enginn vafi á því hvort liðanna færi með sigur úr býtum. Sara Sif Helgadóttir markvörður og Elín Klara Þorkelsdóttir stóðu upp úr í leiknum og voru öðrum fremur leikmennirnir á baki við sigur Hauka að þessu sinni.
Sigurliðið úr rimmu Hauka og ÍBV mætir Fram í undanúrslitum úrslitakeppni Olísdeildar.
Mörk Hauka: Elín Klara Þorkelsdóttir 9/4, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 4, Inga Dís Jóhannsdóttir 3, Birta Lind Jóhannsdóttir 3, Rut Arnfjörð Jónsdóttir 3, Thelma Melsted Björgvinsdóttir 2, Sara Katrín Gunnarsdóttir 1, Rakel Oddný Guðmundsdóttir 1.
Varin skot: Sara Sif Helgadóttir 14, 41,2% – Margrét Einarsdóttir 1/1, 100%.
Mörk ÍBV: Birna Berg Haraldsdóttir 6/2, Sunna Jónsdóttir 6, Dagbjört Ýr Ólafsdóttir 2, Birna María Unnarsdóttir 2, Britney Emilie Florianne Cots 1, Agnes Lilja Styrmisdóttir 1, Ásdís Halla Hjarðar 1, Birna Dís Sigurðardóttir 1.
Varin skot: Marta Wawrzykowska 7, 21,9% – Ólöf Maren Bjarnadóttir 0.
Tölfræði leiksins er hjá HBStatz.