Þrír leikmenn kvennalandsliðs Kúbu stungu af eftir að kúbanska liðið tryggði sér sæti á heimsmeistaramóti kvenna í handknattleik eftir undankeppnina sem fram fór í Mexíkó á dögunum. Naomis Mustelier, Islenia Parra og Nahomi Rodríguez sáust fara upp í lest rétt eftir æfingu landsliðsins þegar einn leikur var eftir á mótinu 10. apríl. Fengu stjórnendur ekkert við neitt ráðið.
Ekkert hefur spurst til leikmannanna þriggja sem eru á meðal þeirra bestu í kúbanska liðinu sem tryggði sér þátttökurétt á HM á næsta ári. Flótti hafði ekki teljandi áhrif á úrslit síðasta leiks landsliðsins á mótinu.
Strangt eftirlit með leikmönnum og slakur viðurgjörningur er sögð vera meðal ástæðna þess að leikmennirnir stungu af. Eins er gríðarleg fátækt á Kúbu meðal almennings
Hvorki kúbönsk yfirvöld né yfirmenn íþróttamála hafa tjáð sig um flóttann. Þetta er alls ekki í fyrsta skipti sem kúbanskt handknattleiksfólk stingur af í leit að betra lífi. Margir hér á landi muna eftir Julian Duranona sem gerði garðinn frægan hér á Fróni fyrir nokkrum áratugum.
Mikil fátækt er á Kúbu og reyna leikmenn landsliða eitt og annað til þess að afla sér skotsilfurs þegar þeir komast út fyrir heimalandið. Skemmst er að minnast umfangsmikillar sölu á vindlum sem leikmenn karlalandsliðs Kúbu stóðu að meðan þeir tóku þátt í heimsmeistaramóti karla í Króatíu í upphafi árs.