Afturelding jafnaði metin í undanúrslitaeinvíginu við Val í úrslitakeppni Olísdeildar karla í handknattleik að Varmá í kvöld. Lokatölur, 31:23, eftir að staðan var 16:10 Mosfellingum í vil í hálfleik. Næsti leikur liðanna verður á Hlíðarenda á föstudagskvöld klukkan 19.30. Hvort lið hefur einn vinning en vinna þarf þrjá leiki til þess að komast í úrslit um Íslandsmeistaratitilinn.
Eftir sigur í framlengingu í fyrsta leiknum, 35:33, þá náðu Valsmenn sér aldrei á strik að nokkru ráði að Varmá í kvöld. Aftureldingarliðið lék afar góða vörn, nokkuð sem Valur náði ekki.
Sem fyrr segir var Afturelding sex mörkum yfir í hálfleik. Á upphafsmínútum síðari hálfleiks náði Valur áhlaupi og minnkaði muninn í tvö mörk, 16:14. Virtist þá stefna í jafnan leik. Ekkert varð úr því og segja má að leikmenn Vals hafi aldrei séð til sólar gegn frábærum leik Aftureldingar, jafnt í vörn sem sókn.
Mörk Aftureldingar: Blær Hinriksson 7, Birgir Steinn Jónsson 6, Árni Bragi Eyjólfsson 4/1, Ihor Kopyshynskyi 4, Kristján Ottó Hjálmsson 4, Þorvaldur Tryggvason 3, Hallur Arason 1, Harri Halldórsson 1, Stefán Magni Hjartarson 1.
Varin skot: Einar Baldvin Baldvinsson 13, 38,2% – Brynjar Vignir Sigurjónsson 3/2, 75%.
Mörk Vals: Bjarni í Selvindi 8, Þorgils Jón Svölu Baldursson 4, Magnús Óli Magnússon 3, Allan Norðberg 2, Agnar Smári Jónsson 2, Kristófer Máni Jónasson 2, Andri Finnsson 1, Úlfar Páll Monsi Þórðarson 1/1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 9, 22,5%.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.