„Tapið er ógeðslega svekkjandi og reyndar báðir leikirnir í þessu einvígi hér á Hlíðarenda. Leikirnir tapast á einu eða tveimur atriðum. Það er bara svo stutt á milli þessara liða. En eins svekktur og ég er með tapið þá er ég stoltur af strákunum og þeim karakter sem þeir sýndu. Við voru hársbreidd frá því að vinna,“ sagði Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar eftir eins marks tap, 30:29, fyrir Val í háspennuleik liðanna á Hlíðarenda.
Við tapið er Afturelding undir í vinningum talið, 2:1, og verður liðið að vinna tvo næstu leiki til þess að komast í úrslitin.
Afturelding var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 16:12. Á síðustu sekúndum fyrri hálfleiks missti Afturelding Birgi Stein Jónsson af leikvelli með rautt spjald fyrir leikbrot en hann var markahæsti leikmaður Aftureldingar í fyrri hálfleik og sannkallaður lykilmaður.
Unnum okkur í gegnum mótlætið
Gunnar sagði vitanlega hafa verið mikill söknuður að Birgi Steini enda sé hann einn aðalmanna liðsins. „Auðvitað var erfitt að missa okkar lykilmann en engu að síður fannst mér við gera margt mjög vel. Við unnum okkur í gegnum hvert mótlætið á eftir öðru og vorum hársbreidd frá sigrinum,“ sagði Gunnar.
Mætum tvíefldir að Varmá
„Þetta er bara hörkueinvígi og áfram er það er bara áfram gakk hjá okkur. Næsti leikur verður á heimavelli og við mætum tvíefldir til leiks fyrir framan okkar fólk. Einvígið verður áfram alveg rosalegt,“ sagði Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar í samtali við handbolta.is í kvöld.
Lengra viðtal við Gunnar er í myndskeiði ofar í þessari grein.
Fengu eitthvað gott að drekka og voru mjög ferskir
Valur er kominn yfir eftir sigur í háspennuleik
Olís karla: Leikjadagskrá, úrslitakeppni 2025