„Þetta var auðveldara en við áttum von á,“ sagði Sigríður Hauksdóttir leikmaður Íslandsmeistara Vals við handbolta.is eftir 21 marks sigur Vals, 33:12, á ÍR í fyrstu viðureign liðanna í undanúrslitum Olísdeildar kvenna í handknattleik á Hlíðarenda í dag. Valur var 17 mörkum yfir í hálfleik, 20:3.
Næst mætast liðin í Skógarseli á þriðjudaginn.
„Við komum vel undir búnar eftir þriggja vikna frí á handboltaleikjum og vorum svo sannarlega hungraðar í að byrja. Það sást á okkur,“ sagði Sigríður ennfremur en hún eins og fleiri af reyndari leikmönnum Vals lék rúmlega hálfan leikinn.
„Vörn og markvarslan var til fyrirmyndar hjá okkur frá upphafi. Sennilega með því besta sem við höfum sýnt í vetur. Þegar það gerðist þá small annað með,“ bætti Sigríður við og ennfremur ánægð með að allir leikmenn Vals fengu tækifæri til þess að spreyta sig.
Lengra viðtal við Sigríði er í myndskeiði hér fyrir ofan.