U19 ára landslið karla í handknattleik tapaði fyrir Slóvenum í fyrstu umferð A-riðils Evrópumóts í Varazdin í Króatíu í dag, 26:22. Slóvenar voru sex mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 14:8. Næsti leikur íslenska liðsins verður á móti ítalska landsliðinu á morgun. Flautað verður til leiks klukkan 12.30 og verður mögulegt að fylgjast með beinni útsendingu á ehftv.com.
Slóvenska liðið var sterkara í leiknum í dag, frá upphafi til enda. Eftir slakan fyrri hálfleik þá náði íslenska liðið sér vel á strik í upphafi síðari hálfleiks og tókst að jafna metin, m.a. 18:18. Þegar níu mínútur voru til leiksloka var munurinn eitt mark, 20:19, Slóvenum í hag. Þeir voru skarpari á endasprettinum og unnu sannfærandi sigur.
Mörk Íslands: Benedikt Gunnar Óskarsson 4, Símon Michael Guðjónsson 4, Andri Már Rúnarsson 3, Kristófer Máni Jónasson 3, Arnór Ísak Haddason 3, Guðmundur Bragi Ástþórsson 1, Þorsteinn Leó Gunnarsson 1, Ísak Gústafsson 1, Gauti Gunnarsson 1, Jóhannes Berg Andrason 1.
Adam Thorstensen varði 13 skot markinu þar af tvö vítaköst.
Serbar og Ítalir eigast við í síðari leik dagsins í A-riðli.