„Við höfum lengi beðið eftir þessum leik,“ segir Hildur Björnsdóttir fyrirliði Vals spurð um fyrri úrslitaleikinn í Evrópubikarkeppninni í handknattleik kvenna við spænska liðið BM Porriño sem fram fer á Spáni í dag. Flautað verður til stórleiksins klukkan 15.
Aldrei fyrr hefur íslenskt kvennalið í handknattleik leikið til úrslita á Evrópumóti félagsliða og því verður um sögulega stund að ræða, ekki aðeins fyrir Val heldur íslenskan handknattleik.
„Þetta er það stærsta sem við höfum gert og reyndar einnig íslenskt kvennalið,“ segir Hildur sem stolt heldur áfram að skrifa handboltasöguna með Valsliðinu.
Conservas Orbe Zendal Bm Porriño er með bækistöðvar í bænum Porriño skammt frá Vigo í suðvestur-Galisíu, rétt norður af landamærum Spánar og Portúgal.
Gerlegt að vinna
„Við förum að sjálfsögðu í leikinn til að gera okkar besta. Ef marka má uppptökur af leikjum BM Porriño þá sýnist okkur það vera gerlegt að vinna,“ segir Hildur og bætir við að Valur hefur þegar unnið lið á leiðinni í úrslitin sem eru af svipuðum styrkleika og BM Porriño.
„Við erum á þeim stað, það höfum við sýnt. Framundan er hörkueinvígi,“ segir Hildur Björnsdóttir sem leiðir lið Vals fram á leikvöllinn í Pabellon Municipal Porriño skömmu fyrir klukkan þrjú í dag í úrslitaleik í Evrópubikarkeppni kvenna. Nýr kafli verður skrifaður í handboltasögu Íslands.
Lengra viðtal við Hildi er í myndskeiði hér fyrir ofan.
Þráðbeint á RÚV
Fyrri viðureign BM Porriño og Vals hefst klukkan 15 í dag. Útsending verður á RÚV frá leiknum.
Síðari leikurinn fer fram á heimavelli Vals laugardaginn 17. maí einnig klukkan 15.
Evrópubikarkeppni kvenna – fréttasíða.