Það stefnir í uppgjör um sigurlaunin í Evrópubikarkeppni kvenna í handknattleik á Hlíðarenda á næsta laugardag eftir að Valur og BM Porriño skildu jöfn, 29:29, í fyrri úrslitaleiknum í Porriño á Spáni í dag. Úrslitaleikurinn hefst klukkan 15 á laugardaginn og rétt fyrir fólk að fjölmenna á leikinn og tryggja sér aðgöngumiða sem fyrst á stubb.is.
Eftir æsilega spennandi síðari hálfleik síðustu 20 mínúturnar jafnaði Micaela Casasola metin með síðasta skoti leiksins á allra síðustu sekúndu við mikinn fögnuð í troðfullri keppnishöllinni í Porriño. Liðlega 2.000 áhorfendur tóku ríkulegan þátt í leiknum.
Valsliðið var mikið öflugra í fyrri hálfleik. Varnarleikurinn var frábær og sóknarleikurinn gekk eins og smurð vél. Staðan í hálfleik var 16:12. Thea Imani Sturludóttir kom Val yfir í annað sinn í hálfleiknum með síðasta skotinu rétt áður en leiktíminn var úti.
Valsliðið byrjaði manni færra í upphafi síðari hálfleiks. Í kjölfarið komu tveir brottrekstrar á fyrstu fimm mínutum. Valur þar með manni færri fyrstu sjö mínúturnar. Þetta nýtti Porriño-liðið til áhlaups. Það jafnaði metin, 18:18 og aftur 19:19. Valur náðu yfirhöndina á ný og var með forskot upp á eitt eða tvö mörk allt þangað til Porriño komst í annað sinn yfir, 28:27, þegar rétt innan við þrjár mínútur voru eftir. Þá tók við æsilega spennandi lokamínútur. Elín Rósa Magnúsdóttir kom Val yfir, 29:28, þegar 22 sekúndur voru til leiksloka. Heimaliðið tók leikhlé í kjölfarið og jafnaði síðan metin, 29:29.
Viðureignin var forsmekkurinn að leik eftir viku sem enginn má missa af.
Mörk Vals: Þórey Anna Ásgeirsdóttir 11/8, Elín Rósa Magnúsdóttir 5, Sigríður Hauksdóttir 3, Elísa Elíasdóttir 3, Thea Imani Sturludóttir 3, Lovísa Thompson 2, Ásdís Þóra Ágústsdóttir 1/1, Hildur Björnsdóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 6, 18% – Silja Arngrímsdóttir Müller 1, 33%.
Mörk Porriño: Micaela Casasola 10, Aitana Santome Santos 6, Carolina Boni 4 Ekaterina Zhukova 3, Maider Barros 2, Paulina Pérez 2, Malena Valles 1, Sarai Samartin 1.
Varin skot: Fátima Ayelen Rosalez Cabrera 9, 25,7% – Ana Belén Palomino Delgado 1, 25%.
Evrópubikarkeppni kvenna – fréttasíða.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.