„Við byrjuðum illa og vorum slakir í fyrri hálfleik. Ekki bætti úr skák að við vorum utan vallar í 12 mínútur í hálfleiknum,“ sagði Heimir Ríkarðsson, þjálfari U19 ára landsliðs karla í samtali við handbolta.is í dag eftir fjögurra marka tap fyrir Slóvenum, 26:22, í upphafsleik liðsins á Evrópumótinu í Króatíu.
„Varnarleikurinn var arfaslakur en batnaði þegar við breyttum um varnaraðferð og náðum að stöðva besta mann Slóvena. Upp úr því tókst okkur að jafna metin en síðan datt ekkert með okkur á síðustu mínútunum eftir að við vorum búnir að jafna leikinn,“ sagði Heimir sem var skiljanlega vonsvikinn með úrslitin enda ætlar íslenska landsliðið sér að ná langt á mótinu.
Átta skoruð mörk í fyrri hálfleik er ekki viðunandi en varð engu að síður staðreynd að þessu sinni. „Það var hreinlega ævintýralegt að við skildum ekki vera nema sex mörkum undir í hálfleik, 14:8. Sóknarleikurinn var hægur og varnarleikurinn flatur og slakur,“ sagði Heimir sem tókst að hleypa meira lífi í leik íslenska liðsins í síðari hálfleik þótt það nægði ekki til þess að ná í að minnsta kosti annað stigið.
„Við fórum illa með opin færi og eins tækifæri úr hornunum. Síðan voru króatísku dómararnir ansi daprir. En fyrst og fremst þá áttum við að leika og betur og vinna leikinn,“ sagði Heimir Ríkarðsson og var þar með rokinn í að leggjast yfir hinn leikinn í riðlinum sem var á milli Ítalíu og Serbíu. Ítalir unnu, 26:24. Þeir verða næstu andstæðingar íslenska landsliðsins.
„Við verðum að vinna tvo næstu leiki og fara upp úr riðlinum,“ sagði Heimir ákveðinn.
Leikur Íslands og Ítalíu hefst klukkan 12.30 á morgun. Hægt verður að fylgjast með honum í beinni útsendingu á ehftv.com án endurgjalds.