Þóra María Sigurjónsdóttir hefur endurnýjað samning sinn við Gróttu og mun leika með félaginu næstu 2 árin. Þóra kom til Gróttu 2022 frá HK og lék fyrst með Gróttu í Grilldeildinni en einnig í Olísdeildinni á síðasta tímabili.
Þóra María er 24 ára leikstjórnandi en einnig öflugur varnarmaður. Áður en að hún kom til Gróttu lék hún með HK í Olísdeildinni en hún er uppalin hjá Aftureldingu.
Júlíus Þórir Stefánsson þjálfari meistaraflokks kvenna í Gróttu segir í tilkynningu að það séu frábærar fréttir að Þóra hafi ákveðið að taka áfram slaginn með Gróttu. Hún sé gífurlega öflugur leikmaður sem styrkir liðið mikið, jafnt í vörn sem sókn.
Grótta féll úr Olísdeildinni í vor. Róið verður öllum árum að endurheimta sæti í deild þeirra bestu á næsta keppnistímabili.