- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

U19: Allt í hnút í Varazdin – myndir frá æfingu í morgun

Frá æfingu U19 ára landsliðsin í Varazdin í Króatíu í morgun. Piltar eiga ekki leik í dag á EM. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

Allt er í hnút í riðli Íslands á Evrópumóti U19 ára karlalandsliða í Króatíu. Eftir að hvert liðanna fjögurra í riðlinum hefur leikið tvisvar hefur hvert þeirra einn vinning og eitt tap. Þetta þýðir að möguleikar allra eru nokkuð jafnir fyrir lokaumferðina sem fram fer á morgun. Að henni lokinni fara tvö efstu lið hvers riðils mótsins, en þeir eru fjórir, í átta liða úrslit. Neðstu tvö lið úr hverjum riðli leika um níunda til sextánda sætið. Engir leikir verða á EM í dag.


Ísland mætir Serbíu á morgun. Serbar unnu Slóvena í gær 36:30 í kjölfar stórsigurs íslenska liðsins á Ítölum, 30:17. Í fyrstu umferð vann Slóvenía íslenska liðið, 26:22, og Ítalir unnu Serba, 28:26.


Íslenska liðið þarf þar af leiðandi helst á sigri að halda gegn Serbum á morgun. Jafntefli gæti þó nægt til að komast áfram. Leikur Íslands og Serbíu hefst klukkan 12.30 og verður hægt að fylgjast með endurgjaldslausri útsendingu frá viðureigninni á ehftv.com.


Spánverjar, Svíar, Þjóðverjar og Danir, undir stjórn Arnórs Atlasonar, eru öruggir áfram í átta liða úrslit og eins Króatar. Baráttan í D-riðli stendur á milli Frakka og Portúgala um að fylgja Króötum úr D-riðli og áfram í átta liða úrslit.


Spánn og Svíþjóð verða andstæðingar Íslands í átta liða úrslitum í næstu viku komist Ísland áfram í átta liða úrslit en Ungverjar og Ísraelar ef það verður hlutskipti íslenska liðsins að leika um níunda til sextánda sætið.


Íslensku piltarnir og þjálfarar þeirra tóku daginn snemma í Varazdin í Króatíu og fóru á góða æfingu eftir morgunmat. Björn Eiríksson liðsstjóri, eða King Bjössi eins og piltarnir nefna Björn, stjórnaði upphitun af röggsemi að sögn Magnúsar Kára Jónssonar fararstjóra íslenska landsliðsins.

„Framundan í dag er enn eitt covid testið, recovery með Adam sjúkraþjálfara og vídeófundur með myndböndum af Serbum,“ sagði Magnús Kári ennfremur en hann sendi handbolta.is myndir frá æfingunni í morgun. Nokkrar þeirra fylgja hér með.

Í lokin fylgir hér mynd af Mosfellingnum Þorsteini Leó Gunnarssyni sem valinn var besti leikmaður íslenska landsliðsins í stórsigrinum á Ítölum, 30:17, í gær. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -