Þvert á margar spár þá vann Kolstad öruggan sigur á Elverum í fyrsta leik liðanna í úrslitum úrslitakeppni norsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik karla í dag. Leikið var á heimavelli Elverum. Kolstad-piltar unnu með sex marka mun, 31:25. Þeir geta þar með tryggt sér sigur í úrslitakeppninni á heimavelli á miðvikudag. Sigur í úrslitakeppninni er dýrmætur því honum fylgir væntanlegt sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.
Íslendingarnir fjórir hjá Kolstad hafa oft verið aðsópsmeiri en að að þessu sinni.
Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði þrjú mörk og var einu sinni vikið af leikvelli. Sveinn Jóhannsson skoraði eitt mark. Hvorki Arnór Snær Óskarsson né Benedikt Gunnar bróðir hans skoruðu mark.
Simen Lyse skoraði 10 mörk fyrir Kolstad og Svíinn Simon Jeppsson var næstur með átta mörk.
Patrick Helland Anderson skoraði átta mörk fyrir Elverum.